Vísbending


Vísbending - 21.12.2015, Síða 20

Vísbending - 21.12.2015, Síða 20
20 Stjórnvöld í Lundúnum sýndu töku Íslands engan áhuga, uns horfur voru á því árið 1800, að Danmörk gengi í bandalag meginlandsþjóða gegn Bretum undir forystu Napóleons Bónapartes. Bretar hertóku þá óðar nýlendur Dana í Karíbahafi og á Indlandi, og breski flotinn hóf baráttu við hinn danska. Þegar John Cochrane sendi enn eina tillöguna um hertöku Íslands til ráðamanna í janúar 1801, var Sir Joseph Banks, forseti Vísindafélagsins breska, fenginn til að semja skýrslu um Ísland, en hann hafði ferðast um landið 1772 og eignast hér vini. Sir Joseph skrifaði rækilega skýrslu um Ísland, taldi íbúana friðsama og óánægða með hina dönsku stjórn landsins. Þess vegna gæti 500 manna lið lagt landið undir sig „án þess að hleypa af skoti“. Hertaka landsins borgaði sig að vísu sennilega ekki frá hagrænu sjónarmiði, sagði hann, því að fiskimiðin væru ekki eins mikilvæg og við Nýfundnaland og brennisteinsnámur ekki eins auðnýtanlegar og á Ítalíu, en Bretar ættu að taka Ísland að sér af siðferðis- og stjórnmálaástæðum, leysa þjóðina „undan egypskri ánauð“. En þegar Sir Joseph skilaði skýrslu sinni var hættan af bandalagi gegn Bretum liðin, svo að stjórnin lagði hana til hliðar. Þegar Danir gerðu sig hins vegar aftur líklega til að ganga til liðs við Napóleon haustið 1807, brugðust Bretar snögglega við. Þeir hertóku á ný nýlendur Dana í Karíbahafi og á Indlandi og stöðvuðu siglingar á milli Íslands og Danmerkur. Færðu þeir Íslandsför til hafnar í Bretlandi. Þegar Sir Joseph Banks frétti af þessu, bað hann stjórnvöld að sleppa Íslandsförunum, enda yrði hungursneyð í landinu, ef flutningar til þess rofnuðu. Hann var nú aftur fenginn til að skrifa skýrslu um hugsanlega töku Íslands. Sir Joseph skilaði skýrslu sinni í árslok 1807 og gerði það á ný að tillögu sinni, að Bretar legðu Ísland undir sig. Ekki þyrfti til þess nema eina freigátu, sem Íslendingar myndu taka fegins hendi. Þeir hefðu þjáðst undir óstjórn Dana, en yrðu „virkir og áhugasamir“, yrðu þeir þegnar Bretakonungs. Bretastjórn ákvað þó eins og 1801 að fara ekki að ráðum Sir Josephs Banks. Hins vegar fékk hann því framgengt, að samkvæmt konunglegum úrskurði frá 1810 var ekki litið á Íslendinga sem óvini í stríðinu við Napóleon. Verslun milli Íslands og Bretlands var leyfð, og Bretakonungur gerðist sérstakur verndari landsins, þótt hann viðurkenndi yfirráð Danakonungs yfir því. Hefur Sir Joseph eflaust bjargað mörgum mannslífum með þessu. Árið 1813 samdi Sir Joseph þriðju skýrsluna um Ísland, og þar sagði hann íbúana hafa sagt sér 1772, að þeir vildu gjarnan „taka þátt í njóta blessunar hins breska stjórnfrelsis“. Hann stakk upp á því, að Ísland fengi sömu réttindi og Guernsey, sem var undir konungi, en ekki Bretastjórn. Enn hafði Bretastjórn ekki áhuga. Skýringin var áreiðanlega sú, að hún taldi ekki svara kostnaði að taka Ísland, þótt það væri breska flotanum hægðarleikur. Þótt fiskimiðin væru vissulega auðug og ábatasamt gæti reynst að versla við Ísland, hefðu Bretar ef til vill þurft að hafa setulið í landinu. Þeir vildu ekki heldur styggja Dani, sem gátu orðið bandamenn síðar meir, þótt þeir hefðu gengið í lið með Napóleon um tíma. Aðalatriðið var, að Bretar réðu hvort sem er yfir Norður- Atlantshafi í krafti hins öfluga flota síns. Til að halda þeim yfirráðum bar enga nauðsyn til að stjórna Íslandi beint, þótt hins vegar þyrfti að tryggja, að ekkert stórveldi annað í Norðurálfunni stjórnaði landinu. Eflaust er það ein meginskýringin á því, að Svíar ásældust ekki hið forna norska skattland Ísland, þegar þeir fengu í friðarsamningnum við Dani í Kíl 1814 Noreg í sárabætur fyrir Finnland, sem þeir höfðu orðið að láta af hendi við Rússakeisara. Kílarsamningurinn var gerður undir handarjaðri Breta. Bandaríkjamenn koma til sögu Danakonungur hafði fjórum sinnum reynt að selja Ísland — 1518, 1524, 1535 og 1645 — og einu sinni talið það svo lítils virði, að ef til vill væri rétt að rýma það — 1785. En þegar Danir biðu 1864 ósigur fyrir Prússum í stríði um Slésvík og Holtsetaland, kom einhverjum ráðamönnum til hugar að reyna að hafa skipti við Prússa á Íslandi og Norður-Slésvík, sem byggð var dönskumælandi fólki. Var þetta lauslega rætt, en umleitanir leiddu í ljós, að Prússar höfðu ekki hinn minnsta áhuga á þessum skiptum, og var þá horfið frá því. Víkur þá sögunni vestur um haf. Árið 1867 keypti Bandaríkjastjórn Alaska af Rússum og samdi líka um að kaupa Dönsku Vestur-Indíur af Dönum. Hafði William H. Seward utanríkisráðherra forystu um þessa gerninga. Hið unga, þróttmikla stórveldi Vesturálfunnar var í ham, og þetta ár lagði áhrifamikill stjórnmálamaður, Robert J. Walker, sem gegnt hafði stöðu fjármálaráðherra, til við Seward, að skoðaðir yrðu möguleikar á að kaupa líka Grænland og jafnvel Ísland af Dönum. Seward tók hugmyndinni vel og bað Walker að semja skýrslu um slík kaup. Walker sneri sér til bandarísku standmælinganna, og var námuverkfræðingurinn Benjamin M. Peirce fenginn til að taka skýrsluna saman. Hann benti þar á, að Ísland lægi miklu nær Grænlandi en löndum Norðurálfunnar, en allir væru sammála um, að Grænland væri í Vesturheimi. Ísland „getur þess vegna talist til Vesturheims ekki síður en Norðurálfunnar“, skrifaði Peirce. Í formála sagði Walker: Fólksfjöldi á Íslandi er um sjötíu þúsund manns, en þegar litið er á graslendi og ræktanlegt land, verðmætar námur, gjöful fiskimið og óviðjafnanlega vatnsorku, gæti landið, fengi það að þróast, framfleytt meira en einni milljón manna. Danir hafa stórkostlega vanrækt landið. Walker benti á, að leggja mætti sæsíma um Ísland til Norðurálfunnar. Taldi hann einsætt, að Bandaríkin ættu að kaupa Grænland og Ísland af Dönum, og nefndi, að slík kaup gætu orðið fylkjunum norðan af Bandaríkjunum, sem höfðu þá nýlega sameinast í breska samveldislandinu Kanada, hvatning til þess að ganga „friðsamlega og fúslega“ í Bandaríkin. Þegar Seward fékk skýrsluna frá Walker, lét hann óðar prenta hana. En á meðan voru kaupin á Dönsku Vestur-Indíum til afgreiðslu á Bandaríkjaþingi. Fulltrúadeildarþingmaðurinn Cadwallader C. Washburn frá Wisconsin andmælti kaupum á Alaska og Vestur- Indíum, en þegar hann bætti við, að nú væri Bandaríkjastjórn líka að velta fyrir sér að kaupa Grænland og Ísland af Dönum, setti hlátur að þingheimi. Fulltrúardeildarmaðurinn Benjamin F. Butler frá Massachusetts kvað vitfirringa eina vilja „kaupa jarð- skjálftana í St. Thomas og ísbreiðurnar á Grænlandi“. Annar full- trúardeildarþingmaður, Thomas Williams frá Pennsylvaníu, hæddist að stjórnvöldum fyrir að sækjast eftir grænlenskum jöklum og íslenskum goshverum. Það flækti málið, að meiri hluti þingsins átti um þær mundir í hatrömmum deilum við Andrew Johnson forseta, sem Seward studdi dyggilega. Þótt Bandaríkjaþing staðfesti kaupin á Alaska, var samningurinn við Dani um kaup á Vestur-Indíum felldur eftir mikið þóf. Seward sá sitt óvænna og hreyfði ekki opinberlega hugmyndum um kaup á Grænlandi og Íslandi. Hér er hins vegar komið forvitnilegt reikningsdæmi. Verðið fyrir Alaska, 7,2 milljónir dala alls, jafngilti 4,74 dölum á ferkílómeta. Hefði ferkílómetrinn á Íslandi selst á sama verði, þá hefði andvirði landsins verið að núvirði um 8,7 milljónir Bandaríkjadölum, sem er ekki fjarri verðhugmyndum Danakonunga á sextándu og seytjándu öld, en nokkru hærra, sem eðlilegt er. Aftur reyndu Bandaríkjamenn að kaupa Vestur-Indíur af Dönum 1901, en þá var samningurinn felldur í Fólksþinginu danska. Kaupin tókust loks 1917. Nú er Alaska fullgilt ríki, eitt af Bandaríkjunum fimmtíu, en Dönsku Vestur-Indíur voru nefndar Bandarísku Jóm- frúreyjur og eru sjálfstjórnarsvæði: Íbúar þeirra senda áheyrnarfulltrúa

x

Vísbending

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.