Vísbending - 21.12.2015, Síða 23
23
sem kaupmenn vildu ekki vera. Líkast til myndi breytingin leiða til
stórhækkaðs kostnaðar við mjólkurdreifingu og minni vörugæða.viii
Frumvarp um frjálsari mjólkursölu var ekki útrætt, en árið
1973 skipaði Halldór E. Sigurðsson landbúnaðarráðherra nefnd
til þess að ræða fyrirkomulag sölunnar. Snemma árs 1976 lá fyrir
stjórnarfrumvarp þar sem lagt var til að þeir kaupmenn gætu selt mjólk
sem stæðust kröfur heilbrigðisyfirvalda. Frumvarpið var samþykkt
sem lög frá alþingi um vorið. Mjólkursamsalan bjó sig undir að loka
mjólkurbúðum sínum.ix En málinu var ekki lokið. Samtök gegn lokun
mjólkurbúða efndu til undirskriftasöfnunar. Í texta mótmælaskjalsins
var því lýst sem myndi taka við ef búðunum yrði lokað:
1. Verri þjónusta við neytendur. Útsölustöðum mun fækka.
2. Lakara vörueftirlit, eldri og lélegri vörur.
3. Útsöluverð mun hækka vegna hærri dreifingarkostnaðar.
4. 167 konur missa atvinnu sína og hafa enga tryggingu fyrir
annarri atvinnu.x
Í september 1976 afhentu samtökin stjórn samsölunnar undirskriftir
rúmlega 17.000 manns. Farin var fjölmenn kröfuganga gegn
lokuninni og haldinn baráttufundur í Austurbæjarbíói. Fundinum
bárust stuðningsyfirlýsingar frá Kvennadeild Verkalýðsfélags
Akraness, stjórn Stúdentaráðs, Arkitektafélaginu, Samtökum ungra
kommúnista, Sókn, Rauðsokkahreyfingunni, þjóðfélagsfræðingum
við Háskóla Íslands og Fylkingunni.xi
Árið 1977, sama árið og Mjólkursamsalan lokaði flestum búðum
sínum, fjölgaði útsölustöðum á mjólkurvörum á svæði hennar úr 173
í 202.xii Í viðtali við Alþýðublaðið ári eftir að mjólkurbúðunum í
Reykjavík var lokað sagðist Stefán Björnsson forstjóri Mjólkur-
samsölunnar ekki vita til þess að neinn væri óánægður með breyt-
inguna.xiii Nokkuð fór tvennum sögum af atvinnumálum starfs-
stúlkna í mjólkurbúðum. Sumar áttu erfitt með að fá vinnu við sitt
hæfi. Aðrar urðu að sætta sig við erfiðari vinnu og verr borgaða en í
mjólkurbúðunum.xiv En vorið 1978 sagði Hallveig Einarsdóttur for-
maður Félags afgreiðslustúlkna í brauð og mjólkurbúðum, að betur
hefði ræst úr atvinnuvanda kvennanna en hún hefði þorað að vona.
Aðeins þrjár afgreiðslukonur hefðu tekið út fullar atvinnuleysis-
bætur.xv
Úrelt skipulag
Ekki verður betur séð en að ávinningurinn af breytingunni hafi verið
stjórnendum Mjólkursamsölunnar fullljós - að minnsta kosti þegar
hún var í þann veginn að ná fram að ganga. Í greinargerð til Samtaka
gegn lokun mjólkurbúða, sem samin var í september 1976, sagði
stjórn samsölunnar að eftir að hvaða matvöruverslun sem er, sem
stæðist kröfur heilbrigðisyfirvalda, gæti fengið mjólkursöluleyfi, yrði
,,ekki fjárhagsgrundvöllur fyrir rekstri Samsölubúðanna, enda ætti
rekstur þeirra þá að vera óþarfur og eðlileg mjólkurdreifing tryggð á
annan hátt.” Jafnframt sagði í greinargerðinni að ,,[a]thugun [hefði]
ennfremur leitt í ljós, að við breytinguna
[myndi] útsölustöðum mjólkur væntanlega
fjölga.“ Alls ekki yrði fallist á að hreinlæti
eða vörueftirlit myndi versna. Eftirlit yrði
enn sem fyrr í höndum borgarlæknis.xvi
Með öðrum orðum sparaði breytingin ekki
aðeins fé að mati stjórnarinnar, heldur gætu
neytendur líkast til sótt mjólkina á fleiri staði,
auk þess sem kröfum um hreinlæti yrði ekki
síður sinnt en áður.
Hvers vegna lét Samsalan þá ekki
kaupmenn um að selja mjólkina löngu fyrr?
Skýringin gæti legið í því að bændur,
sem eiga Mjólkursamsöluna, stjórna henni
ekki beint. Samsalan er sjálfstætt fyrir-
tæki og hagsmunir stjórnenda og eigenda
fara ekki alltaf saman. Stjórnendur gætu
til dæmis viljað hafa fyrirtækið sem
stærst, í stað þess að stefna að sem mestri
hagkvæmni í rekstri. Þegar fyrirtæki stækka
vex virðing stjórnendanna og starfið verður
skemmtilegra.
Árið 1959 í mjólkurbúðinni við Laugaveg 162. Úr mjólkurbúðinni við Brekkulæk. Áttu enda? Krakkar úr hverfum Reykjavíkur
notuðust við sömu aðferð, báðu blíðlega og
brosandi um vínarbrauðsenda.
Fjölmenn kröfuganga var farin gegn lo
kun mjólkurbúða í lok september 1976
og birtist þessi mynd af
þeim viðburði í Þjóðviljanum.