Són - 01.01.2011, Page 33
33FÁEIN ORÐ UM RADDGLUFULOKUN . . . .
Eins og sjá má á mynd 1 er ljóst að mjög dregur úr s-stuðlun á 14. öld.
Þegar litið er yfir kveðskap þeirra fjögurra skálda, sem tekin voru dæmi
af frá 14. öld, kemur í ljós að þau nota s-stuðlun sem hér segir:
Arngrímur Brandsson níu sinnum í 256 braglínupörum,
Eysteinn Ásgrímsson fjórum sinnum í 381 braglínupari,
Einar Gilsson einu sinni í 259 braglínupörum og
Árni Jónsson notaði aldrei s-stuðlun í þeim 304 braglínupörum
sem hann orti.
Af þessu má glöggt sjá hvernig breytingin gengur fyrir sig. Í kveðskap
Eysteins Ásgrímssonar og Einars Gilssonar eru tilvikin þar sem þeir
stuðla sl/sn við sj, sv og s+sérhljóð mun færri en meðaltalstalan segir til
um (sjá Ragnar Inga Aðalsteinsson 2010:177–8). Árni Jónsson var
samtíðarmaður þeirra en hann virðist hafa haft örlítið annað sjónar -
horn á stuðlun með s. Ef til vill var hann fæddur og alinn upp annars
staðar á landinu en hinir, þar sem sníkjuhljóðið hafði fest sig fyrr í
sessi, eða hann var örlítið yngri en þeir. Kannski var hann bara með
næmara brageyra. Hann er uppi á þeim tíma sem breytingin er að
ganga yfir en stuðlar sn og sl ekki við s+sérhljóð. Arngrímur Brands-
son og þeir sem eru honum eldri nota allir s-stuðlun án minnstu vand-
kvæða. Þeir sem koma á eftir Árna Jónssyni nota hana alls ekki.
Af þessu má sjá að á 14. öld er s-stuðlun að hverfa. Ástæðan er talin
vera sníkjuhljóðið sem fyrr var nefnt. Eftir það finnst þessi stuðlun
ekki fyrr en hjá Eggerti Ólafssyni u.þ.b. 450 árum seinna. Á tímabilinu
frá dögum Árna Jónssonar til Eggerts Ólafssonar eru sex skáld til
skoðunar. Þau eru:
Einar Sigurðsson í Heydölum (1538-1626)
Jón Arason (1484-1550)
Magnús Jónsson prúði (1525?-1591?)
Hallgrímur Pétursson (1614-1674)
Stefán Ólafsson (1619?-1688)
Steinunn Finnsdóttir (f. um 1641-dd. óvíst)
Ekkert þessara skálda notaði s-stuðlun sem séð varð í eitt einasta skipti,
ekki frekar en Árni Jónsson. Brotthvarf s-stuðlunar er svo afgerandi
að eftir það finnast ekki minnstu leifar um þessa stuðlun sem í
kveðskap fornskáldanna var svo algeng að hún finnst í kvæðum allra
þeirra sem skoðuð voru, að jafnaði tvö til þrjú dæmi í hverjum 100
braglínupörum (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2010:168–170; sjá einnig
Viðauka I bls. 305–319).
Þegar s-stuðlun er tekin upp aftur á 18. öld er svo að sjá að það sé
gert á öðrum forsendum en áður. Af þeim 11 skáldum sem skoðuð