Són - 01.01.2011, Page 40
40 RAGNAR INGI AÐALSTEINSSON
og niðurstaðan er sem sagt sú að aðeins eitt þeirra stuðlar hv við k.12
Þegar aftur er litið til þeirra Þorsteins frá Hamri og Þórarins Eldjárns,
sem tjáðu skoðanir sínar á ýmsum tilbrigðum stuðlasetningarinnar eins
og vitnað var til hér að framan, kemur fram hjá þeim svipað sjónarmið
gagnvart hv-stuðlun og þeir hafa gagnvart sníkjuhljóðsstuðluninni.
Þeim ber saman um að það trufli ekki brageyra þeirra þegar skáld og
hagyrðingar stuðla hv á móti k en þeir nota þessa stuðlun ekki sjálfir.
Hv-stuðlun virðist því vera undir sömu sök seld og sníkjuhljóðs -
stuðlunin. Hún er notuð einstöku sinnum af sumum skáldum en aldrei
af öðrum, hún er viðurkennd af hagorðum mönnum og góðskáldum
sem „ekki röng“ en hún er ekki frekar en sníkjuhljóðsstuðlunin komin
til að vera.
Skáldin eru fastheldin á hefðina. „Stuðlatregðulögmálið“
Af þeim dæmum sem skoðuð eru og skráð hér að framan er ljóst að
þegar framburður breytist og framstöðuklasar eru ekki lengur þeir
sömu verða breytingar á stuðluninni. Af súluritunum, sem sýnd eru á
myndum 1 og 2, er ljóst að þær breytingar sem þar eru sýnd eru
afgerandi og ganga hratt fyrir sig. S-stuðluninni lýkur á 14. öld og eftir
það sést ekki um hana eitt einasta dæmi fyrr en á 18. öld og þá á breytt -
um forsendum. Eftir að j breytist eða er endurskilgreint um 1600, eða
hugsanlega eitthvað fyrr, hættir það svo algjörlega að stuðla við sér -
hljóð að eftir það finnst ekki nema ein undantekning í nokkur þúsund
braglínupörum. Þessi niðurstaða segir sína sögu um hið margrómaða
brageyra íslenskra skálda. Augljóst er að þeir sem yrkja hlusta eftir
málhljóðunum og leyfa sér engar undantekningar eða tilslakanir. Rétt
skal vera rétt.
Breytingarnar sem sýndar eru á myndum 1 og 2 eiga það sameiginlegt
að þar breytast framstöðuhljóð á þann veg að jafngildisflokkarnir
raskast, ákveðin hljóð sem áður stuðluðu hvort (hvert) við annað gera
það ekki lengur. Í þeim tilvikum verða breytingarnar afgerandi og
fljótvirkar. Brageyrað neitar að samþykkja stuðlunina og þar með er
hún úr gildi. Þegar kemur að myndum 3 og 4 er allt annað uppi á ten-
ingnum. Þar hafa breytingarnar skapað nýja jafngildisflokka sem ekki
voru í gildi áður. Þá kemur í ljós, að jafnvel þó að öllum hagorðum
mönnum beri saman um að hljóðin séu fullkomlega nógu lík til að
12 Hér er miðað við slembiúrtakið. Hugsanlega gætu verið dæmi um þetta í kveðskap
hinna skáldanna en þau hljóta að vera tiltölulega fá því þau lenda þá utan úrtaksins.