Són - 01.01.2011, Síða 41
41FÁEIN ORÐ UM RADDGLUFULOKUN . . . .
stuðla saman er samt eins og skáldin veigri sér við að stuðla þannig.
Allar breytingar sem felast í því að bæta við eða stuðla saman eitthvað
sem ekki hefur stuðlað saman áður mæta mótstöðu og ganga seint eða
ekki fyrir sig. Þessi tilhneiging, sem hér verður einfaldlega kölluð
„stuðlatregðulögmálið“, gerir það að verkum að sníkjuhljóðsstuðlun
er enn ekki almennilega viðurkennd meðal hagyrðinga og seint og illa
gengur að fá menn til að stuðla orð sem hefjast á hv á móti orðum sem
hefjast á k.
Eina viðbót í stuðlasetningu, sem náð hefur einhverri fótfestu í
skáldskapnum, átti sér stað þegar gnýstuðlarnir sl og sn bættust við þá
þrjá (eða fjóra, sjá um sm Ragnar Inga Aðalsteinsson 2010:181) sem
fyrir voru, sk, sp og st. Þegar sníkjuhljóðið kom til um 1400 eða þar
um bil hefði auðvitað verið fyllilega eðlilegt að eftir það stuðluðu
klasarnir sl og sn við st, eins og gerðist þegar sníkjuhljóðsstuðlunin
loksins kom til, sem varð löngu síðar. En skáldin hafa þekkt gný -
stuðlana sem fyrir voru og í vandræðum sínum með þessi breyttu fram-
stöðuhljóð, sl og sn, gripu þau til þess að skapa tvo gnýstuðla í viðbót
við þá sem þekktir voru úr kveðskapnum. Vegna gnýstuðlanna sem
fyrir voru hefur þeim fundist að þessi leið bryti ekki eins freklega gegn
braghefðinni og sníkjuhljóðsstuðlunin.
Raddglufulokun er valfrjáls í dag. Var hún það til forna?
Nú er rétt að víkja aftur að þeirri kenningu sem nefnd var í upphafi
greinarinnar og gengur út á það að raddglufulokun, [ʔ], myndi sér -
stakan jafngildisflokk og sé ástæða þess að sérhljóðarnir geta stuðlað
hver við annan. Þá hljótum við að reikna með því að raddglufulokun
hafi verið skyldubundin til forna. Lokunin hlýtur að hafa orðið að
vera til staðar í öllum framstöðusérhljóðum til að hægt væri að byggja
stuðla verkið í kveðskapnum upp á fullnægjandi hátt. Hér að ofan
hefur komið skýrt fram að skáldin eru nákvæm og leyfa engin frávik.
Þá staðreynd að lokunin hljóti að hafa verið skyldubundin skoðum
við svo aftur í ljósi þess að þessi raddglufulokun er valfrjáls í dag (sjá
Kristján Árnason 2000:6). Ef kenningin á að standast hlýtur þróunin
að hafa verið sú að upphaflega hafi raddglufulokun verið skyldu -
bundin og þannig hafi sérhljóðarnir getað stuðlað hver við annan.
Einhvern tíma hafi svo orðið breyting í þá átt að lokunin varð valfrjáls
og sú breyting ætti þá ekki að hafa haft meiri áhrif á stuðlunina en
svo að sérhljóðarnir stuðla án minnstu vandkvæða hver við annan í
dag eins og fjöldi dæma sýnir: