Són - 01.01.2011, Síða 110
110 ÞÓRÐUR HELGASON
týna.“ Og um meðferð brags kemur fram að þar hafa rímur sérstöðu:
„Hvað bragsmíði eður rím snertir, þá eru rímur þessar eða söguljóð
ort alveg á sama hátt og tíðkazt hefur að fornu og nýju, nefnilega eftir
„náttúr legri tilfinningu“, en ekki eftir tilbúnum bragfræðisreglum.“96
Þetta eru merkileg orð. Ekki er annað að skilja en að í rímum gildi
sérstakar reglur um brag; reglur nýja tímans eiga ekki við rímurnar
sem hlíta sínum eigin reglum. Það sem „óvandað“ var kallað í brag
var ekki svo óvandað í rímum vegna hefðarinnar, hins sögulega.
Svo sem fram hefur komið greindi menn á um hvort rímur væru
söguljóð; sumir vildu hafa það svo, eins og fram hefur komið, aðrir
mótmæla því. Þannig verða rímurnar stundum eins og munaðarlausar,
kannski eins og börnin hennar Evu.
IV. Lokaorð
Rímur hlutu að líða undir lok. Engum vafa er undirorpið að margir
söknuðu þeirra. Heil grein ljóðlistarinnar hvarf af sviðinu og lifði í
endurminningum þeirra sem brátt myndu kveðja jarðlífið. Að vísu
hafa verið ortar nokkrar rímur á 20. öld. En satt að segja minnir slíkt
á að við minnumst gjarna forns íslensks matar og matarvenja einu sinni
á ári, eins og í minningar- og virðingarskyni við þann mat sem eitt
sinn var borðaður.
Rímunum var gert að berjast við þrenns konar skáldakyn, hið upp -
lýsta, hið rómantíska og hið raunsæja, auk yfirvalda kirkjunnar. Þær
höfðu lengi vel betur en urðu síðan að láta í minni pokann. Þrátt fyrir
það er rímum margt þakkað, líklega með réttu. Gamall fróðleikur
varðveittist í þeim, Eddan gleymdist ekki, ljóðstafir héldust að mestu
óbrenglaðir frá fornum tíma, hagmælskan var viðvarandi æfing í
meðferð málsins og hefur án efa stuðlað að varðveislu tungunnar.
Ljóðagerðin breyttist með nýjum smekk og fór sigurför um leið og
skáldin fengu nýjan virðingarsess. Skáldsagan, sem átti svo erfitt upp-
dráttar á Íslandi á 19. öld, braggaðist og tók við hinu epíska hlutverki
sem hún sinnir enn ásamt kvikmyndum og fleiri miðlum.
Það hér áður venja var,
vísur dáðu stúlkurnar.
Kossa þáðu og þesskonar
þeir, sem kváðu rímurnar.
Örn Arnarson
96 Benedikt Gröndal (1951 II:581).