Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2008, Blaðsíða 6
IV
Tímarit um menntarannsóknir, 5. árgangur 2008
Frá ritstjóra
Að skilja eða bæta
Mat á gildi menntarannsókna hefur færst nokkuð frá áherslu á skilning og skýringu til áherslu á
hagnýtingu. Á sama tíma hafa ýmsir aðilar sem veita fé til rannsókna, ekki síst opinberir, aukið
áhrif sín á efnisval og vinnubrögð við rannsóknir. Þeir sem sækja um fé til menntarannsókna eru
því iðulega í þeirri stöðu að þurfa að velja á milli hefðbundins rannsóknafrelsis annars vegar og
fylgispektar við viðmiðanir úthlutunarnefnda hins vegar þar sem hagnýtingarsjónarmið, samstarf
um rannsóknir og alþjóðleg tengsl eru í auknum mæli metin til hagsbóta.
Taka má undir þau sjónarmið að niðurstöður rannsókna ættu fyrr eða síðar að skila sér í umbótum
á sem flestum sviðum mannlífsins í heiminum. Að því leyti sé rannsóknarfé fjárfesting til langs
tíma sem huga skuli að jafnt í góðæri sem krepputíð. Einnig má samsinna því að þetta eigi jafnt við
um rannsóknir í menntamálum sem aðrar rannsóknir. Til áréttingar má geta þess að fræðikenningar
menntarannsókna hafa margar hverjar ekki þann tilgang einan að skilja eða skýra heldur fela þær
oftast í sér óskir um að heimurinn breytist á tiltekinn veg. Þessi „normatífi“ hugsunarháttur stríðir
gegn hefðbundinni, gagnrýninni rannsóknarhugsun sem forðast yfirleitt að fjalla um hvað sé rétt og
rangt. Í menntarannsóknum er víðast hvar viðurkennt að ekki sé hægt að forðast hina „normatífu“
hugsun alfarið, hið siðræna sjónarhorn hafi oftast yfirhöndina gagnvart hinu raunsæja. Þetta gerir
menntarannsóknir einkar menningarbundnar.
En - menntarannsóknir eru af því tagi að mikla áherslu þarf að leggja á skilning og
skýringu jafnframt hagnýtingu. Það er fjölmargt sem skiptir meginmáli í flóknum náms- og
kennslusamskiptum sem við skiljum ekki ennþá. Hvað veldur til dæmis námsáhuga barna og
unglinga? Hvað ræður því hvort nemendum líður vel í skóla eða ekki? Við vitum hreinlega ekki
nógu mikið um hvernig nám fer fram eða hvaða kennsluaðferðir duga best og hvers vegna; eða
hvaða áhrif menntastofnanir hafa á nám og kennslu. Þess vegna þurfum við að þróa nýjar kenningar
og rannsóknaraðferðir; við þurfum að gæta okkar að draga ekki of víðtækar ályktanir, til dæmis
um orsakatengsl, af takmörkuðum niðurstöðum yfirborðskenndra kannana. Þetta er ítrekað vegna
þess að skóla- og fræðslustarf er ein fjölmennasta og dýrasta tilraun sem þjóðfélagið stendur fyrir
með þegna sína og of mikið er í húfi til að við höfum nokkur efni á því að standa í stað. Til að
fyrirbyggja slíkt er til dæmis brýnt að starfendur í skólum hafi náið samstarf við rannsakendur.
Niðurstöður úttektar á rannsóknum á sviði fræðslu- og menntamála árið 2005 voru einmitt þær m.a.
að stefna bæri að sameiginlegri endurskoðun á vinnubrögðum og aukinni samvinnu milli hinna
ýmsu hagsmunaaðila um skólastarf og menntarannsóknir.
Mikil þróun hefur orðið í menntarannsóknum hér á landi síðastliðin 10 ár og hún heldur áfram.
Á þessu tímabili hefur menntuðum rannsakendum fjölgað hratt enda framboð á rannsóknartengdu
framhaldsnámi í miklum vexti um allan heim. Félag um menntarannsóknir var stofnað fyrir
nokkrum árum og tvö tímarit sem birta rannsóknarritgerðir á sviðinu (Netla og Tímarit um
menntarannsóknir) hófu göngu sína til viðbótar því tímariti (Uppeldi og menntun) sem fyrir var.
Nokkur stór rannsóknarverkefni hafa verið unnin fyrir íslenska og erlenda styrki.