Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2008, Qupperneq 66
64
Tímarit um menntarannsóknir, 5. árgangur 2008
Helga Rut Guðmundsdóttir
„tónmennt“ voru: hreyfing og tjáning,
hljóðgjafar og hljóðfæri og hlustun og kynning
(Stefán Edelstein, Egill Friðleifsson, Jón
Hlöðver Áskelsson, Sigríður Pálmadóttir,
Jón Ásgeirsson og Njáll Sigurðsson, 1972;
Aðalnámskrá grunnskóla, 1976). Auk þess
er minnst á nótnalestur, ritun, flutning og
greiningu tónlistar bæði í námsefni og í
umfjöllun um námsgreinina í ýmsum ritum frá
og með 1972 (Guðfinna Dóra Ólafsdóttir, Njáll
Sigurðsson, Þórunn Björnsdóttir og Herdís H.
Oddsdóttir, 1990). Það má því segja að á síðustu
áratugum 20. aldarinnar hafi tónlistarfræðsla í
skyldunámi breyst úr söngkennslu í margþætta
námsgrein sem spannaði vítt svið. Til vitnis
um aukið umfang greinarinnar má benda á að
í námskránni frá 1960 spannaði umfjöllunin
um tónlist sjö blaðsíður en í námskránni frá
1976 er fjallað um námsgreinina tónmennt á
47 blaðsíðum.
Námsgreinin tónmennt heyrir undir
yfirheitið „Listgreinar“ í núgildandi lögum um
grunnskóla (Lög um grunnskóla, nr. 66/1995).
Þeim hatti deilir námsgreinin með fjórum
öðrum listgreinum, þ.e. dansi, leiklist, myndlist
og textílmennt. Lögin kveða á um að fjórum
kennslustundum á viku (160 stundum alls)
skuli að jafnaði varið til kennslu listgreina í
1.–8. bekk, en ekki er að öðru leyti fjallað um
skiptingu tíma milli greina. Samkvæmt lögum
skal aðalnámskrá fjalla nánar um útfærslu
þeirra.
Í Aðalnámskrá grunnskóla 1999 sker
námsgreinin tónmennt sig frá hinum
listgreinunum að því leyti að gengið er út
frá því að nemendur í 1.–8. bekk fái tvær
kennslustundir á viku í greininni. Ekki er að
finna sams konar ákvæði um tímafjölda fyrir
hinar listgreinarnar. Það gætir því misræmis
milli listgreina í núgildandi aðalnámskrá
sem getur skapað togstreitu og gerir hvorki
stjórnendum skóla né málsvörum listgreina
auðvelt fyrir. Ef tekið er mið af Aðalnámskrá
grunnskóla um tónmennt, þá skal kenna
tónmennt í tvær stundir á viku frá 1. bekk upp
í 8. bekk. Þá eru aðeins tvær stundir eftir til
að deila milli fjögurra annarra listgreina nema
felld sé niður kennsla í einhverri þeirra eða
heildartímafjöldi til listgreina aukinn umfram
lögboðnar fjórar stundir á viku.
Umfjöllun um námsgreinina tónmennt
í fjölmiðlum dregur gjarnan dám af þeirri
togstreitu sem hér um ræðir þar sem óskýrt er
hversu mörgum stundum er skylt að verja til
kennslu í greininni. Þá er gjarnan vísað til þess
að nemendur eigi rétt á fleiri kennslustundum
en þeir fá í tónmennt: „Tónlistin er hins
vegar afskipt í skólanum og réttindi barna
brotin“ (Bergþóra Jónsdóttir, 2006). Fleira
kemur til, svo sem afnám kennsluafsláttar
tónmenntakennara í kjarasamningum 2001
sem hratt af stað umræðu um niðurlægingu
greinarinnar í skólum landsins. Þar má nefna
sem dæmi fyrirsagnir eins og: „Verður tónmennt
úthýst úr grunnskólum landsins?“ (Þórunn
Björnsdóttir, 2001), og fullyrðingar á borð
við: „Á undanförnum árum hefur tónmennt
sem kennslugrein átt undir högg að sækja“
(Sigursveinn Magnússon, 2004).
Í skýrslu sem gerð var á vegum
Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur kveður við
svipaðan tón þar sem talað er um langan
aðdraganda að vanda tónmenntakennslu í
grunnskólum Reykjavíkur. Þar er rætt um skort á
tónmenntakennurum, óhagstæða kjarasamninga
og kennsluálag sem ástæður vandans
(Tillögur um fyrirkomulag tónlistaruppeldis
í grunnskólum Reykjavíkur, 2003, bls. 4).
Skýrslunni fylgir könnun þar sem kemur fram
að aðeins lítill hluti grunnskóla í Reykjavík
veitti nemendum sínum tvær kennslustundir á
viku í tónmennt í öllum bekkjum frá 1.–8. bekk
og brjóta því flestir þeirra í bága við það sem
gert er ráð fyrir í Aðalnámskrá grunnskóla frá
1999. Algengara var að tónmennt væri kennd
sjaldnar í viku og ekki í öllum árgöngum
frá 1. bekk upp í 8. bekk (Niðurstöður
könnunar á fyrirkomulagi tónmenntakennslu í
grunnskólum Reykjavíkur, 2003). Samkvæmt
könnun Menntamálaráðuneytisins sama ár
kenndu flestir skólar tónmennt einu sinni í
viku eða allt að 48% í sumum árgöngum. Færri
kenndu tónmennt tvisvar sinnum í viku eða
allt að 37% í 2. bekk. Fáir kenndu tónmennt