Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2008, Side 81
79
Tímarit um menntarannsóknir, 5. árgangur 2008
voru gerðar hérlendis og varða ráðgjöf til
foreldra.
Árið 2004 birtust niðurstöður umfangs-
mikillar rannsóknar sem gerð var á vegum
Miðstöðvar heilsuverndar barna og náði til
foreldra ungra barna af öllu landinu (Gyða
Haraldsdóttir, 2005). Rannsóknin sýndi mikla
þörf foreldra fyrir ráðgjöf, ekki síst viðvíkjandi
aga. Meirihluti þeirra (70%) vildi gjarnan eiga
kost á ráðgjöf hjá leikskólakennurum eftir að
börnin hefðu náð leikskólaaldri. Í rannsókn
Birnu Maríu Svanbjörnsdóttur (2007), sem
náði til úrtaks foreldra barna á aldrinum 4 –12
ára á Akureyri, voru foreldrar spurðir hvort
þeir væru hlynntir stuðningi í einhverjum þætti
foreldrahlutverksins. Niðurstöður sýndu að
nær 70% þátttakenda voru hlynnt stuðningi í
uppeldishlutverkinu. Þeir vildu einkum stuð-
ning í formi fyrirlestra, námskeiða og
persónulegrar ráðgjafar. Þörf foreldra
fyrir stuðning við uppeldið er vafalaust af
margvíslegum toga og ætla má að breyttir
þjóðfélagshættir hafi þar haft afgerandi áhrif.
Samstarf við foreldra
Þar sem uppeldi barna fer fram bæði á heimilum
og í skólum, og tíminn sem börnin dvelja í
skólunum hefur lengst verulega, er æskilegt
að kennarar og foreldrar þekki væntingar og
uppeldislegar áherslur hver hjá öðrum og
samræmi þær eftir því sem kostur er (Andersen
og Rasmussen, 1996; Gestwicki, 2007; Rodd,
2006). Þótt samstarf kennara og foreldra sé
mikilvægt með velferð barnsins í huga er margt
sem getur haft áhrif á hversu vel tekst til.
Rodd (2006) segir að leikskólakennarar
hafi gjarnan litið á sig sem sérfræðinga
um börn á leikskólaaldri og talið sig hafa
menntun og færni til að bæta úr því sem
skorti á í uppeldi foreldranna. Þeir hafi talið
þörf á að bæta uppeldið. Það sjónarmið að
líta á sig sem sérfræðinga í uppeldi ungra
barna og foreldrum fremri á því sviði telur
hún að hafi tafið fyrir umbótum í samstarfi
leikskólakennara og foreldra. Samstarfið hafi
því oft verið yfirborðskennt og meira í orði
en á borði. Nú sé hins vegar lögð áhersla á að
bæði foreldrar og leikskólakennarar búi yfir
mikilvægri þekkingu, hvorir á sinn hátt, og
að hvorir tveggju þurfi að leggja til málanna
ef vel á að takast til við uppeldi barnanna.
Leikskóla kennarar þurfi að mæta foreldrum
á jafnræðisgrund velli, leita eftir þekkingu
þeirra og bjóða fram sína sérþekkingu svo að
foreldrar finni að þeir eigi greiðan aðgang að
henni og geti valið og hafnað. Þá er líklegra að
samstarfið geti orðið náið og að foreldrar eflist
í uppeldishlutverkinu (Rodd, 2006; Swick,
2004). Þetta er í samræmi við það sem kemur
fram hjá Nönnu Christiansen (2005) um faglegt
hlutverk kennara í foreldrasamstarfi.
Bæði Katz (1995) og Vander Ven (1988)
telja sig hafa komist að því að samstarf
leikskólakennara og foreldra fari eftir því hve
mikla reynslu leikskólakennarinn hafi fengið
sem leiðtogi í þess háttar samstarfi, að það
fari eftir starfsþroska hans. Það sé ekki fyrr
en hann hafi náð traustri faglegri vitund og
styrk í starfi sem hann geti farið að bregðast af
skilningi við þörfum og væntingum foreldra.
Swick (2004) segir að til þess að geta brugðist
við þeim sé mikilvægt að kynna sér hverjar
þær séu. Hann bendir á að fagfólk þurfi að
bregðast við þörfum foreldra á uppbyggjandi
hátt, m.a. með því að veita þeim meiri fræðslu,
efla samskiptin og gera þau markvissari. Þá
þurfi leikskólakennarar að beina athyglinni enn
frekar að fjölskyldunni í heild.
Í Penn Green stofnuninni í Englandi, sem
rekur bæði vöggustofu og leikskóla fyrir
ung börn, hefur verið unnið skipulega að
því að fá foreldra til beinnar þátttöku í starfi
stofnunarinnar með það fyrir augum að efla
þá í foreldrahlutverkinu. Þar er lögð áhersla
á að nálgast foreldra út frá styrkleika þeirra,
þekkingu og hæfni (Whalley, 1997; 2007).
Foreldrar búa yfir mikilvægri þekkingu, ekki
síður en kennarar, og víða má sjá að lögð er
áhersla á þá staðreynd þegar fjallað er um
samstarf foreldra og kennara (Knopf og Swick,
2008; Rodd, 2006; Turnbull, Turnbull, Erwin
og Soodak, 2006).
Almennt er viðurkennt að góð tengsl
milli kennara og foreldra skipti máli fyrir
Þáttur ráðgjafar í samstarfi leikskólakennara og foreldra