Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2008, Qupperneq 95
93
Tímarit um menntarannsóknir, 5. árgangur 2008
Markmið kennaranáms:
Starfshæfni og fagmennska
Ragnhildur Bjarnadóttir
Háskóla Íslands, Menntavísindasviði
Ágrip: Í greininni er fjallað um notkun hæfnihugtaksins (e. competence) í tengslum við
kennaramenntun síðastliðna hálfa öld. Megináhersla er lögð á að fjalla um tengsl hæfnihugtaksins
við námshugtakið, umfjöllun um fagmennsku kennara og breytingar á kennarahlutverkinu.
Hugtakið er nú ríkjandi í umfjöllun um námsmarkmið en skilgreiningar á því hafa breyst á
undanförnum áratugum. Áður fyrr var hæfni notuð um frammistöðu og sýnilegan árangur þar sem
verksvit og notagildi náms var í brennidepli. Í seinni tíð hefur hugtakið verið notað um afrakstur
náms í breiðum skilningi og einnig hefur „starfshæfni kennara“ (e. teacher competence) verið
tengd hugmyndum um fagmennsku kennara og um félagslega sýn á námshugtakið. Greininni er
ætlað að vera innlegg í umræðu um það hvernig æskilegt sé að skilgreina þá starfshæfni sem stefnt
skuli að í kennaranámi.
Tímarit um menntarannsóknir, 5. árgangur 2008, 93–106
Hagnýt gildi: Grein þessari er ætlað að vera innlegg í umræðu um markmið kennaranáms og
þá einkum um skilgreiningar á faglegri starfshæfni verðandi kennara. Hún hefur þannig hagnýtt
gildi fyrir þá sem standa að skipulagi kennaranáms, bæði kennara og stjórnendur. Einnig má ætla
að greinin nýtist kennaranemum og kennurum í framhaldsnámi, þar sem fjallað er um þróun
hugmynda um inntak kennaranáms, námshugtakið og nýlegar hugmyndir um starfsmenntun þar
sem leitast er við að tengja saman fræðilegt og hagnýtt nám.
Í grein þessari er leitast við að varpa ljósi
á notkun hæfnihugtaksins í tengslum við
kennaramenntun1. Hugtakið hæfni (e.
competence) hefur verið áberandi undanfarin
ár í umfjöllun um námsmarkmið, m.a. í
kennaranámi. Hugtakið á sér reyndar langa
sögu í menntunarfræði en inntak þess hefur
víkkað og skilgreiningar breyst á undanförnum
áratugum. Starfshæfni kennara (e. teacher
competence; d: lærerkompetence) hefur verið
vinsælt umfjöllunarefni fræðimanna síðastliðin
ár enda benda nýlegar rannsóknir til þess að
þekking og hæfni kennara sé helsti áhrifaþáttur
á árangur nemenda og þá umfram marga
aðra áhrifaþætti, eins og félagslegar aðstæður,
menningarlegan uppruna og bekkjarstærð
(Darling-Hammond og Bransford, 2005;
OECD, 2005).
Markmið greinarinnar er að kanna þróun
og inntak hæfnihugtaksins í tengslum við
kennaramenntun undanfarin 50–60 ár. Stiklað
verður á stóru í sögulegu yfirliti yfir notkun
hæfnihugtaksins á þessu árabili og leitast við
að varpa ljósi á tengsl hæfnihugtaksins við
námshugtakið, umfjöllun um fagmennsku
kennara og breyttar kröfur til kennara í
nútímasamfélagi. Greininni er ætlað að vera
framlag til umræðu um það hvernig beri að
skilgreina þá starfshæfni sem æskilegt er að
verðandi kennarar öðlist.
1 Grein þessi er að verulegu leyti samantekt á umfjöllun minni um hæfnihugtakið í fimm greinum um rannsóknir á
kennaramenntun. Fjórar þeirra birtust á árunum 2004, 2005 (tvær greinar) og 2008 (sjá nánar í heimildaskrá). Ein þeirra
mun birtast í tímaritinu Uppeldi og menntun haustið 2008.