Skírnir - 01.01.1970, Page 15
SKÍRNIR
HETJURNAR LÍTA BLEIKA AKRA
13
fengja megi skoðun Barða virðist einnig Einar Ólafur álíta að
Njálu-höfundur hafi verið í einhverjum tengslum við þessa ætt.
Kristian Kálund gat þess til að höfundur Njálu hafi verið munkur
í Þykkvabæj arklaustri, aðalmiðstöð bókmenntastarfs á suðvestur-
landi á 13du öld.2 Sé einhver hæfa í öllu þessu mætti furðulegt heita
ef höfundur Njálu hefði ekki þekkt Alexanders sögu.
Að mínu viti er hér um áhugaverðara efni að ræða en það eitt að
saga þiggi nokkrar setningar að láni úr annarri. Hliðstæða sú sem
Einar Ól. Sveinsson benti á getur orðið til að bregða birtu yfir
byggingarlag og hugmyndaheim beggja sagnanna, hlutverk hetju
og vald örlaga yfir hetjunni í meðförum þeirra. Vera má að nokkuð
lærist um listrænt gildi sagnanna ef nánar er gaumgæfð afstaða
þeirra sín í milli, og verði jafnvel unnt að draga af þeim ályktanir
um erlend áhrif á íslenzka sagnhefð.
Alexanders saga er þýðing á latnesku kvæði undir hexametri,
Alexandreis eða Alexanderskviðu, sem franskur höfundur, Gautier
de Chatillon (einnig nefndur Galterus de Castilione eða Walter af
Chatillon) orti um það bil 1180. Efni kvæðisins er sótt í kröniku
Quintus Curtiusar um herferðir Alexanders mikla, en kvæðið er
að ætt og eðli komið af klassískum latneskum hetjukvæðum, svo
sem Eneasarkviðu Virgils og Pharsaliu eftir Lucanus. Alexanders-
kviða er eins og þau auðkennd af uppbyggilegu málskrúði, tákn-
fræði, dæmisögum og heimspekilegmn íhugunum, en hugmynda-
heimur fornaldar er í kvæðinu orðinn að kristinni fræði eins og
venjan var um latneskan skáldskap frá „endurreisn 12tu aldar“.
Alexander verður hjá Gautier dæmi til eftirbreytni og aðvörimar.
Höfundur hermir lesendum sínum frá manni sem yfirvann gervallan
heiminn í krafti hetjuhugar síns og riddaralegra dyggða en beið
sjálfur lægri hlut fyrir eigin hybris, ofmetnaði sínum, enda ókristinn
maður. Uppbyggileg tilætlun kvæðisins kom þó ekki í veg fyrir að
Gautier lýsti bardögum og mannraunum með svo dramatískum og
skáldlegum tilþrifum að Alexanderskviða varð brátt eitt vinsælasta
skáldverk miðalda - tilvitnað, þýtt, stælt og lesið í skólasetrum allrar
Evrópu.3 Það var því ofureðlilegt að kvæðið skyldi einnig berast til
íslands og verða þar að söguefni.
Finnur Jónsson bendir á hve frjálslega þýðandinn hafi farið með
latneska frumkvæðið til að semja það að íslenzkri sagnhefð.4 Hann