Skírnir - 01.01.1970, Page 35
SKÍRNIR
HEITSTRENGING GOÐANS
33
samlegt athæfi, að sverja þess eið að verða öðrum til miska. í áhrifa-
miklu riti frá tólftu öld kemst heimspekingurinn Hugo,1 2 3 sem kenndur
er við Agústínusar-klaustrið St Victor í París, svo að orði, að eftir
slíkan eið sé mönnum betra að rjúfa hann en bæta glæpnum við.
Hann tekur skýrt fram, að hafi einhver strengt þess heit að drepa
mann eða fremja annan glæp, þá eigi menn ekki að fullnægja lieit-
strengingunni, því að þá sé maðurinn sekur um tvöfalt brot: að
sverj a illan eið og fremj a lofað óhæfuverk.
Hrafnkels saga er rituð á þrettándu öld, að því er næst verður
komizt. Enginn ætti að takast á hendur að kanna liana og skýra
nema hann þekki til þeirrar aldar. Allt hjal um „hetjuhugsjónir'‘
fornaldar og „mikilmennsku“ þeirra manna, sem vinna lúalega glæpi,
stingur hastarlega í stúf við eðli frásagnanna og markmið. Með
auknum húmanisma í sagnaskýringum hlýtur bilið milli þrettándu
og tíundu aldar sífellt að breikka og þáttur samtímans að aukast að
sama skapi. Sögurnar voru ritaðar í ákveðnum tilgangi og handa
fólki, sem var höfundum samtíða, og slíkt verður ávallt að hafa í
huga, hvað sem rómantískum grillum hetjudýrkenda líður.
1 Það má naumast heita vansalaust, að enn hefur ekki komið góð útgáfa á
Hrafnkels sögu hérlendis. Langbezta útgáfan, sem nú er völ á, er sú sem Jón
Helgason sá um fyrir ritsafnið Nordisk Filologi, og er hún með skýringum á
dönsku, enda er hún ætluð háskólanemum á Norðurlöndum. En bráðlega er
von á vísindalegri útgáfu á sögunni í ritflokknum Editiones Arnamagnœanœ
(Series B), og hefur Peter Springborg unnið það mikla afrek.
2 Sigurður Nordal, Hrajnkatla (1940 ) 58. (Skáletranir mínar.)
3 Hugo var fæddur í Saxlandi árið 1096 og lézt árið 1141. Hann gekk í reglu
Ágústínusar og gerðist munkur í Sankti-Viktors klaustrinu f París árið 1115,
þar sem hann dvaldist síðan lengstum ævi við nám, kennslu og ritstörf. Það
rit sem hér er vitnað til heitir De Sacramentis Christianae Fidei, samið um
1134. Þess má að lokum geta, að eitt af verkum Hugos, Soliloquium de arrha
animœ, er enn til í fomri íslenzkri þýðingu. Sjá Hauksbók (1892-96),
bls. 308-330.
3