Skírnir - 01.01.1970, Page 168
162
EYSTEINN SIGURÐSSON
SKÍRNIR
(9,1%), er einnig að finna hlutfallslega mesta notkun þeirra í lík-
ingum (4,2%). í kvæðunum í Slútnesi og Útsær, sem sýna lægra
hlutfall einkunna af þessari tegund (6,6 og 6,5%), er hlutfallslegur
fjöldi þeirra, sem notaðar eru til að mynda myndlíkingar, á hinn
bóginn mun lægri (2,8 og 2,3%). Allar tölurnar eru þó nægilega
háar til þess, að þessar niðurstöður styðja fyrrgreinda hugmynd
Karólínu Einarsdóttur, og auk þess sýna þær, að í hafískvæði sínu
notar Einar slíkar einkunnir í myndlíkingum í meira mæli en a. m. k.
í þeim tveim öðrum kvæðum sínum, sem hér hafa verið athuguð.
Segir það atriði nokkra sögu um hin listrænu vinnubrögð hans í því
verki.
IV
Enn er þó ósvarað þeirri spurningu, hvort athuganir á borð við
þessar hafi í rauninni nokkra hagnýta þýðingu — hvort þær segi
okkur nokkuð það, sem raunverulega auki skilning okkar á verk-
unum. Einnig er þess að vænta, að ýmsir minnist þess, þegar slíkar
skoðanir ber á góma, að það hefur lengi verið talinn höfuðglæpur
af kennurum, ef þeir hafa látið nemendur sína greina skáldverk
niðm- í orðflokka eða setningarhluta, en vanrækt að útskýra fyrir
þeim listræna samsetningu (strúktúr) viðkomandi verks og notkun
einstakra list- og stílbragða.
í því efni verður þó að hafa í huga, að sá efniviður, sem skáldin
vinna með við listsköpun sína, er einfaldlega móðurmálið sjálft,
enda er viðurkennt, að haldgóð þekking á viðkomandi málsamfé-
lagi sé nauðsynleg undirstaða hjá hverjum þeim, sem fjallar
um skáldverk. Hér hefur fyrst og fremst verið dvalið við notkun
nafnorða í þeim verkum, sem athuguð voru, enda er ljóst, að vitn-
eskja um það efni getur verið gagnleg við túlkun á ljóðum. Að öðru
jöfnu má gera ráð fyrir, að mikilli notkun nafnorða fylgi það, að
kvæðin séu myndrænni og líkingaauðugri en ella, þar sem aftur
á móti t. d. meiri notkun sagnorða, fornafna og smáorða tilheyri
frekar almennri frásagnaraðferð. Þá er líka ljóst, að mikil notkun
nafnstýrðs eignarfalls nafnorða er fornt einkenni á íslenzkum skáld-
skap, svo að mikil notkun þess hjá einstökum skáldum gefur tilefni til
að ætla, að þau séu öllu frekar undir áhrifum frá fornri innlendri
skáldskaparhefð (kenningastílnum) en önnur. Gildir þetta jafnt, þótt