Skírnir - 01.01.1970, Page 174
168
HELGA KRESS
SKÍRNIR
við leikstjórn, og varð það upphaf á umfangsmiklum leikstj órnar-
ferli hans. Sýningin lilaut mikið lof og góða aðsókn, sem var mikill
sigur fyrir svo ungan höfund.
Ollu verr tókst til með Konungsglímuna. Hún var að vísu gefin út
í Danmörku og hlaut góða dóma, en höfundi tókst ekki að fá hana
setta þar á svið að sinni. Olli það honum svo mikilli gremju og von-
brigðum, að hann lýsti því yfir í einu stærsta blaði Kaupmanna-
hafnar, að hann segi skilið við Danmörku og muni hér eftir ekki
skrifa fleiri bækur á dönsku.10 Ekki lét hann heldur sitja við orðin
tóm, en sigldi haustið 1915 vestur um haf til Ameríku, þar sem hann
hugði á landnám í hinum enskumælandi heimi.
Þótt dvölin vestra yrði skemmri en Kamban hafði ætlað og ylli
honum nýjum vonbrigðum, markaði hún djúp spor í rithöfundarferil
hans. Og má raunar segja, að þar hafi hann komizt til fulls þroska
sem rithöfundur. Um þessar mundir voru talsverð umhrot í banda-
rískum bókmenntum. Raunsæishöfundar eins og Theodore Dreiser
og Upton Sinclair ollu miklu róti með þjóðfélagsádeilum sínum.
Hjá þeim gilti ekki kjörorðið „l’art pour l‘art“, heldur var list
þeirra fyrir lifið, í þágu hugsjónar, og þeir deildu miskunnar-
laust á hvers kyns misrétti og hræsni í bandarísku þjóðlífi. Geta
má nærri, að Kamban hefur kynnt sér verk þeirra og hrifizt af
eldmóði þeirra og baráttuhug. Eiga þau tvímælalaust stærstan ef
ekki allan þátt í þeirri nýju stefnu, sem skáldskapur Kambans
tekur eftir Ameríkudvölina. Úr þessum jarðvegi spretta þjóðfélags-
ádeilur hans.
Þegar Kamban sagði skilið við Danmörku, má telja líklegt, að
hann hafi þegar verið búinn að fá nóg af að skrifa í nýrómantískum
anda Jóhanns Sigurjónssonar og viljað finna sér sínar eigin leiðir.
I Danmörku grundvölluðust vinsældir íslenzku rithöfundanna án efa
að miklu leyti á skírskotun til alls þess, sem íslenzkt var í augum
útlendinga. Við þetta hefur Guðmundur Kamban ekki verið alls
kostar sáttur. Hann var heimsborgari og maður nútímans, sem vildi
vera mikill af sjálfum sér og láta taka mark á sér án nokkurrar við-
miðunar við Island. Hann hefur þyrst í eitthvað nýtt og þess vegna
verið opinn fyrir öllum áhrifum, sem gætu hleypt skáldskap hans í
frjósamari og árangursríkari farveg.
Fjögur næstu meiri háttar verk hans, sem hann semur eftir að