Skírnir - 01.01.1970, Page 176
170
HELGA KRESS
SKÍRNIR
Marmara á dönsku, sem að öllum líkindum er samin fimmtán árum
síðar en upphaflega gerðin. Helzta breytingin er sú, að fyrsta þætti
er alveg sleppt, og í eftirleiknum hafa sumir ræðumennirnir vikið
við ræðum sínum, t. a. m. er í yngri gerðinni hæðzt að blöðunum -
talað um réttsýni þeirra og hleypidómaleysi. Kamban varð ekki
ánægður með þessa gerð Marmara, og var hún ekki gefin út. Hugð-
ist hann umrita verkið einu sinni enn, en af því varð aldrei.12
Beizkja í garð ritdómara og blaða kemur víðar fram í ritum
Kamhans, einna fyrst í Sendiherranum frá Júpíter, en einkum í leik-
ritinu Grandezza, sem er raunar frá upphafi til enda háð að blaða-
mennsku. Taldi Kamban ósanngjarna blaðagagnrýni hafa spillt fyrir
vinsældum verka sinna og gekk meira að segja svo langt, að hann
vildi láta banna alla bókmenntagagnrýni.13
Með næsta verki sínu, leikritinu Vér morðingjar, vann Kamban
ótvíræðan sigur, enda er það heilsteyptasta og dramatískasta verk
hans. Það fjallar um hörmulega sambúð hjóna og lýsir tildrögum
þess, að jafnvammlaus maður og Ernest Mclntyre myrðir konu
sína. Leikritið er einnig ádeila á bandarískt þjóðfélag, sem metur fá-
nýtt glys, skemmtanir og ytri gæði ofar öllu. Sá boðskapur um sið-
gæði hjónabandsins, sem fram kemur í þessu leikriti, varð Guð-
mundi Kamban seinna uppistaða í þau verk, sem eingöngu fjalla um
hjónabandið. Að vissu leyti mætti því einnig telja það til þess þáttar
í ritstörfum hans,þótt það sé þjóðfélagsádeila að stefnu til. Með leik-
ritinu vill Kamban uppræta hina rótgrónu skoðun um hinn fædda
glæpamann - um glæpamanngerðina. I sporum Ernests hefðum vér
öll getað orðið morðingjar - ekkert morð er hryllilegt nema morð
ríkisins, af því að það geta engar ástríður afsakað. A slíku morði
eigum vér öll sök - og einnig í því tilliti erum vér morðingj ar. Leik-
ritið var frumsýnt í Kaupmannahöfn vorið 1920 og tekið með kost-
um og kynjum.14 Á íslandi hefur það verið sýnt nokkrum sinnum,
og er það eitt lífvænlegasta leikritið í íslenzkum leikbókmenntum.
Þótt leikritinu væri svona vel tekið, fór mið þess gjörsamlega fyrir
ofan garð og neðan hjá áhorfendum, því að það voru fyrst og fremst
átök hjónanna og raunsæ lýsing þeirra, sem athygli vöktu. Með
þetta var Kamban ekki fyllilega ánægður, og því samdi hann eftir-
spil við leikritið, þar sem hann áréttir ádeilu sína á þjóðfélagið og
refsingar þess. Eftirspilið hefur aldrei verið sett á svið eða birt fyrr