Skírnir - 01.01.1970, Síða 181
SKÍRNIR
GUÐMUNDUR KAMBAN
175
nota það einnig í skáldsögu. Leikritið í Skálholli (Paa Skalholt,
1934), sem f j allar um sama efni og tvær fyrri bækur skáldsögunnar,
er því ekki samið upp úr henni, heldur jafnhliða.
Leikritið var frumsýnt í Konunglega leikhúsinu í Kaupmanna-
höfn árið 1934 undir leikstjórn höfundar, og er þess skemmst að
geta, að sýningin féll með pomp og prakt.22 Segir Steinn Steinarr,
sem viðstaddur var sýninguna, að sig minni, að hún stæði yfir í
samfleytt sex klukkustundir, og aldrei hafi hann sé leikhúsgestum
leiðast eins mikið.23
Kamban stytti síðar leikritið að mun og miðaði við flutning í út-
varpi. Er það sú gerð þess, sem leikin hefur verið við miklar vin-
sældir hér á landi, bæði í útvarpi og á sviði.
Skáldsöguna Vítt sé ég land og fagurt (Jeg ser et stort skpnt Land,
1936) tileinkaði höfundurinn „norrænum anda“, en þeirri tileinkun
hefur verið sleppt í íslenzkum útgáfum sögunnar,- sem komu út eftir
lát höfundar. Sagan fjallar um landafundi og landnám Islendinga á
Grænlandi og Vínlandi um árið 1000, hetjudáðir þeirra og stór-
brotin örlög. Hún er nokkuð langdregin, en hefur að geyma marga
eftirminnilega kafla, eins og t. a. m. hina hrikalegu lýsingu á Frey-
dísi Eiríksdóttur.
Aldrei skyldu menn líta á sögulegar skáldsögur sem sögulegar
heimildir. Á því tvennu er eðlismunur, og eru skáldsögur Kambans
þar engin undantekning. I Skálholti gætir t. a. m. hlálegs misskiln-
ings höfundar, þegar hann lætur Valgerði veizlukerlingu, á dönsku
„Festkælling“, hafa staðið fyrir boðsveizlum, en veizlukerlingar voru
þær kerlingar nefndar á íslandi, sem flökkuðu milli bæja og þágu
þar mat og húsaskjól, öðru nafni veizlur.
í sögulegu skáldsögum sínum gerir Kamban sér far um að sýna
aldarandann sem allra bezt. Fyrnir hann í því skyni mál og stíl og
færir aftur til þess tíma, er sagan gerist. Þó verður honum það oft
og tíðum á að nota 20. aldar málfar og j afnvel dönskuslettur, þegar
sízt skyldi, og rjúfa þannig allóþyrmilega hina listrænu blekkingu.
Vegna efnis hafa þessar sögur nokkuð verið þýddar og gefnar út
á erlendum tungumálum og því líklega náð mestri útbreiðslu af
verkum Kambans, þótt þær gefi hvergi nærri dæmigerða mynd af
skoðunum hans eða skáldskap í heild.
Sérstæð meðal skáldverka Kambans er skáldsagan Þrítugasta