Skírnir - 01.01.1970, Page 183
SKÍRNIR
GUÐMUNDUR KAMBAN
177
katastrófa, park, lunch, gambl, noisemaker, sandwich, check. Einnig
er honum mjög gjarnt að láta persónur ræðast við í hástemmdum
myndum og likingum, sem er vitaskuld langt frá eðlilegu talmáli.
Niðurstaðan af þessum ósamstæða samsetningi verður því oft sú,
að stíllinn orkar næsta óvandaður eða hirðuleysislegur, eða jafnvel
svo sem höfundur hafi ekki á honum fyllilegt vald.
Síðustu skáldverk Kambans eru gamanleikirnir Vöf (Komplekser,
1941), Grandezza (1941) og ef til vill leikritið Þúsund mílur.
Leikritið Vöf var upphaflega samið sem útvarpsleikrit, og bera
tíð samtöl milli tveggja persóna því vitni. Góðlátlegt skop að kenn-
ingum Freuds er kveikja þess. Grandezza fjallar um stríðsfanga, sem
misst hefur minnið og æsiskrif blaðamanna, sem einskis svífast.
Leikritið er byggt á sannsögulegum atburðum, svonefndu Canelli-
Bruneri máli, sem umfangsmikil réttarrannsókn var gerð út af á
Italíu um 1930 og evrópsk blöð slógu upp sem æsifrétt dag eftir
dag.27 Þótt hvorugt þessara verka risti djúpt og gamansemi þeirra
megi oft teljast nokkuð þvinguð, eru þau bæði heilsteypt að bygg-
ingu, og eflaust væri hægt að fá spennu í Grandezza á sviöi.
Oðru máli gegnir um leikritið Þúsund mílur, sem nýlega fannst
meðal þeirra handrita Kambans, sem eru í vörzlu Gísla Jónssonar
bróður hans. Það er ákaflega losaralegt verk, t. a. m. er síðasti
þáttur þess gjörsamlega utan gátta og í engum tengslum við megin-
efnið.
Kamban virðist hvergi í viðtölum eða greinum minnast á þetta
leikrit meðal verka sinna, sem honum var þó tamt að ræða um, og
að öllurn líkindum ekki heldur í einkabréfum til vina sinna, þar sem
fundur þess kom svo mjög á óvart. Einu heimildir um Kamban sem
höfund þessa leikrits eru eiginhandarrit og tvö vélrituð eintök með
nafni hans. En eru þær heimildir nógar til þess, að því verði slegið
föstu, að hann sé höfundur þess? Leikritið er ársett 1939, en einmitt
um það leyti fékkst Kamban nokkuð við að þýða leikrit á dönsku, t.
a. m. er til meðal þessara handrita þýðing á leikriti eftir Austen
nokkurn Allén, og einnig gerði hann tilraunir með að dramatísera
skáldsögur, t. a. m. Gösta Berlings sögu eftir Selmu Lagerlöf, sem
einnig hafa varðveitzt drög að meöal handritanna, sem eru hjá Gísla
Jónssyni. Án þess að nokkuð verði fullyrt um tilurö leikritsins Þús-
und mílur, má benda á, að það hefur öll einkenni þess að geta verið
12