Skírnir - 01.01.1970, Page 197
SKÍRNIR
STAÐTOLULEG MÆLING
191
þetta að benda til Sturlu Þórðarsonar sem Eyrbyggjuhöfundar. í
rannsókninni um Eglu-Snorra leiddu samstæðnarannsóknir Hallberg
á þá hugsunarbraut, að Laxdæla mundi vera eldri en Eyrbyggja. Hér
bætir hann nú við nýrri röksemd um þetta. Athugun á tíðni sagn-
orðanna hittask / finnask leiðir í Ijós, að hittask er mun meira
notuð framan af sagnaritunartímanum en síðar, en finnask vinn-
ur á og verður í skýlausum meirihluta, þegar lengra líður. Þetta er
eflaust rétt og er út af fyrir sig gagnlegt þekkingaratriði. Mæld á
þennan skamma mælikvarða virðist Laxdæla eldri en Eyrbyggja,
en eins og Hallberg sýnir sjálfur með samanburði ólíkra texta Sverr-
is sögu, gat þetta atriði hæglega breytzt í meðförum skrifara. Er því
notagildið vafasamt. Líklega á sú mótbára síður við um öfuga orða-
röð, en þó er varasamt um að dæma. Óviss ferill rita í handritum
veldur því, að fara verður fram með ýtrustu varúð. I yfirlitsbókinni
hefur Hallberg tekið þetta efni upp að nýju, en þó stuttlega og
einkum með tilliti til samanburðar ólíkra texta sömu sagna. Meira
textamagn en áður liggur nú einnig til grundvallar, og fundizt hefur
bæði hærri og lægri tíðni umsagnar-upphafs en fyrr, 82% í Lárent-
ius sögu biskups og 1,8 í Ljósvetninga sögu. Munur á ólíkum text-
um sagna er ekki tiltakanlega mikill nema í Ólafs sögu Odds og Ljós-
vetninga sögu.
Af framansögðu sést glöggt, hvernig áherzlan hefur færzt frá ein-
stökum atriðum orðaforðans yfir á stílræn mæliatriði. í flestum
dæmum er erfitt að meta burðargildi slíkra atriða. í næstu sjálf-
stæðu grein sinni (sjá nm. 3) fjallar Hallberg um orðasamböndin
um daginn (sumarið o. s. frv.) eptir / eptir um daginn (o. s. frv.).
Síðarnefnda orðalagið er mjög sjaldgæft nema í Heimskringlu og
Eglu. Fullljóst er, að hið einkennilega orðalag eptir um daginn hef-
ur snemma þótt óeðlilegt; í konungasögum Flateyjarbókar hefur
þessu í flestum dæmum verið breytt. Hér er því um að ræða mjög
ákveðna ábendingu um, að Egla og Heimskringla eigi höfund sam-
an.
Hér hefur nú verið skyggnzt yfir greinar Hallbergs að undanskild-
um þeim, sem sprottið hafa fram sem viðbrögð við gagnrýni. Skal
nú í þess stað vikið að yfirlitsverkinu og einkum því, sem þar kemur
nýtt fram.