Skírnir - 01.01.1970, Síða 201
SKÍRNIR STAÐTÖLULEG MÆLING 195
samsteypa sagna um postulana hvorn í sínu lagi. Slíkar sögur eru til,
en í brotum og ólíkum gerðum (sbr. útg. Ungers). Fyrir samanburð
sinn skiptir Hallberg þessum textum djarflega í hluta. Gerð I—III
af Jóns sögu tekur hann í einu lagi, Jón A. Gerð IV heldur hann sér,
Jón B. Gerðir Jakobs sögu tekur hann í einu lagi, Jakob. Falla
þannig textarnir í aðeins fjórar deildir fyrir samanburðarprófin:
Jón A, Jón B, Jákob, ]]. Kjarnanum úr prófum þeim, sem beitt var
við Karlamagnús sögu, er nú beitt gegn þessum textum (orðaröð,
frásagnartíð, mæla — segja — svara — tala, orðalistunum tveimur).
Mælitækið, sem beitt er í allri þessari rannsókn, hefur þar með verið
smíðað, og er stika þessi borin að einu bókverkinu af öðru í því,
sem á eftir fer. Um leið fer svo, að slakað er á kröfunni um full-
komna talningu allra fyrirbrigðanna frá upphafi textanna til enda
þeirra. Þess í stað er nú stundum látið nægj a að telj a svo mikið, að
ætla megi að tíðnitölur fáist nokkurn veginn réttar. Veltur þá mikið
á, hvort mælitækið er orðið nógu næmt, fjölliliða og áreiðanlegt.
Niðurstaðan úr þessum prófum verður, að textarnir Jón B og //
séu ótvírætt svo náskyldir Agul B og Krapt, að rittengsl í einstökum
atriðum nægi alls ekki til að skýra það. Hallberg telur, að sami
maður hafi lagt hönd að öllum verkunum.
Nú er svo komið, að rannsóknin líkist ögn lögregluskáldsögu um
skeið. Vegna rittengsla við Karlamagnús sögu beinist athyglin að
heilagra manna sögum, höfundurinn þykist sjá líkingu með Mikaels
sögu og Agul B og Krapt. Hann ber því kvarða sinn að textum Heil-
agra manna sagna (útg. Ungers). Með því að skil má greina í Mika-
els sögu, er henni skipt í tvennt, Mik A og Mik B, og fjórir saman-
burðartextar af svipaðri lengd, Heil A-D, eru teknir af handahófi úr
safninu. Nú er það svo, að Bergur Sokkason ábóti hefur, að því er
virðist ótvírætt, gengizt við samsetningu Mikaels sögu, svo að
lausn gátunnar um höfund þessara verka er nú á leiðinni. Fyrstu
prófin, um orðaröð og frásagnartíð, sýna, að miklu munar á hin-
um tveimur hlutum Mikaels sögu, og eru hundraðstölur öfugrar
orðaraðar og frásagnarnútíðar miklu hærri í seinni hlutanum, sem
Hallberg kallar Mik A. í þessum atriðum kemst enginn texti í hálf-
kvisti við Mik A nema Heil D, þar sem hundraðstölurnar um þessi
stílrænu atriði eru ívið hærri. Stykkið Heil D fellur allt innan marka
Nikulás sögu erkibiskups II, sem Bergur ábóti hefur einnig sett sam-