Skírnir - 01.01.1970, Page 218
212
RITDÓMAR
SKÍRNIR
skoðun sinni. Hitt er svo, að er hann ritar um Ólaíssögu Odds munks, þá má
ef til vill láta sér detta í hug, að höfundur og skáldjöfur hafi misst sem
snöggvast taumhaldið á Pegasusi. Það virðist nokkuð auðséð, að þeir góðu
munkar á Þingeyrum hafi tilhneigingu til að gera Ólaf konung Tryggvason að
helgum manni og klæða hann í tignarleik hins suðræna rómverska konungs,
enda finnur Halldór Laxness það. En eigi að gera mann að dýrlingi, þá er
frumskilyrðið hjá þeirri bókastofnun, sem kirkjan er, að lífssaga hans, vita,
verði skráð á tungu kirkjunnar, latínu, flúruð tilteknum minnsta skammti
jartegna og kraftaverka. Og er talað er um Ólaf digra, sem sumir nefna helg-
an, þá er það út í hött að setja á prent, að nafn hans eigi ekki að hafa
heyrzt í Rómaborg fyrri en 1891. Getur hver, sem vill, flett miðaldagögnum
til að afsanna þessa villukenningu höfuðskáldsins um staðreyndir. En hverju
orði er það sannara, er hann drepur á „skapljónin“. Þar er mikilvægt atriði,
sem verður að gefa náinn gaum. Og hverju orði er það sannara, þegar HaU-
dór Laxness setur fram skoðanir sínar á geymd minnanna. Hitt er svo það,
hvort eitthvað hafi verið til letrað eða ekki fyrir 1100. Það er mál sér á parti.
Fundimir á seinustu árum í Björgvin og í Rússlandi benda til, að rúnir hafi
verið notaðar mun miklu meir en nokkurn nema ævintýramenn grunaði.
Gæti það hent til, að almenn notkun þeirra sé töluvert eldri en álitið hefur
verið. Halldór Laxness gerir réttilega mikið úr heitinu Vínlandi og bendir á
alls kyns háska, sem leiðir af heiti því. Hins vegar nefnir hann ekki, að ske
kynni, að heitið hafi upphaflega verið Ftnland, sama orð og til að mynda í
Björgiáre. Þó virðist það orð ekki koma fyrir í ömefnum hérlendis nema, ef
ske kynni, í heitinu Viná í Austfjörðum, sem túlka má á annan hátt. En
hvað sem þessu líður, þá er aðalmálið, hvort Vínlandskortið sé falsað eða
ekki. Yfir aðföngum þess hvílir leiðindahula, sem skapar tortryggni og efa-
semdir; samt er engin sönnun til fyrir því, að um fölsun sé að ræða. Og
reyndar er kortið ekki eins merkilegt og stundum er látið. Grænlandsmyndin
er andstæð því, sem arfsagnir vilja vera láta, þar sem hún kemur fram sem
eyja. Þó er eigi víst, að svo hafi verið ætlunin, þar sem norðurströndin, ef
væri, er dregin með þeim hætti, að ske kynni, að hafi átt að tákna, að eitt-
hvert land ótiltekið væri þar fyrir norðan. Eiginnöfnin í textanum eru eigi
heldur eins tortryggileg og ætlað er, því þau eru með þeim rithætti, sem tíðk-
aðist á hinu normanníska svæði á 15. öld, það er að segja í Englandi og
Norður-Frakklandi. Gæti það atriði gefið ábendingu um, hvar upphafs korts-
ins sé að leita. Margt bendir til, að kortið hafi verið gert um eða upp úr 1500,
en varlega verður að fara í að slá nokkru föstu um það, þar sem mýmargt á
ugglaust eftir að koma í ljós. Vonandi gengur greitt að draga fram smáatriðin
í sambandi við kortið, því þegar öllu er á botninn hvolft, þá ráða þau úrslitum.
Hafi Halldór Laxness þökk fyrir að birta hugdettur sínar enda þótt margt
geti verið þar aðfinnsluvert. Er Halldór Laxness hér þjóðlegur og kemur
fyrir sem fræðimaður í gamla stíl.
Magnús Már Lárusson