Skírnir - 01.01.1970, Page 239
SKÍRNIK
RITDOMAR
233
þeirra voru í safnritinu Erlend nútímaljóð sem Einar Bragi og Jón Oskar tóku
saman úr Ijóðaþýðingum yngri skálda, kynslóðar atómskálda og formbyltingar,
1958.
Þegar að því kemur að fjallað verði í samhengi um „formbyltingarskeið"
ljóðagerðarinnar, áratuginn eftir styrjöldina eða svo, verður ljóðaþýðingunt
skáldanna sem við þá sögu koma vafalaust gefinn meiri gaumur en til þessa.
Ekki fyrst og fremst vegna skáldlegra verðleika sinna á íslenzku, sem satt að
segja munu einatt vera harla takmarkaðir, heldur til marks um ljóðræn viðhorf
og vinnubrögð þýðendanna sjálfra, mótunaröfl á þeirra eigin skáldskap. Vel
má það reyndar vera að bein erlend áhrif á atómskáldin, fyrirmynd tiltckinna
höfunda fyrir þá, hafi oftlega verið ofmetin í umræðum um þessi mál, og þá
oftast í álösunarskyni. Hvað sem því líður er víst að hin yngri skáld hafa lagt
allmikla og almenna stund á erlendan samtíðarskáldskap. Þýðingar þeirra
verða alltént til marks um þeirra eigin áhugamál á þessu sviði, hvaða efni og
höfundar einkum hafi laðað þá að sér, viðleitni þeirra, hversu sem tekizt hef-
ur, að orða á íslenzku ljóðstíl við hæfi viðfangsefnanna.
Þýðingakver Einars Braga, Hrafnar í skýjum, virðist mér að megi verða til
marks um þessa almennu þýðingariðju, og það nýtur ýmsra beztu kosta hennar.
Efnislega er bók hans furðu fjölbreytt: Einar Bragi hefur lagt sig eftir alls
konar „módernisma", allt frá Baudelaire og Whitman, upphafsmönnum hans
á öldinni sem leið. En mestur veigur finnst að minnsta kosti mér í þýðingum
hans úr sænsku, á ljóðum finnsk-sænsku skáldanna Edithar Södergran og
Gunnars Björling. Það kann að þykja einkennilegt, þó auðvitað sé skýring til
á því, að „módernismi“ ljóðagerðar á Norðurlöndum hófst í fyrstu meðal
sænskumælandi skálda í Finnlandi, og hafa Ijóð þeirra, lítils metin í fyrstu,
haft ómæld áhrif síðan, fyrst í Svíþjóð og síðan annarstaðar á Norðurlönd-
um. Þýðingar Einars Braga á fjórum ljóðum Edithar Södergran, hinnar miklu
völvu þessarar hreyfingar, virðast mjög svo nákvæmlega gerðar, ágætlega orð-
aður texti á íslenzku. Einar Bragi er auðsæilega vandlátur þýðandi, ágætlega
smekkvís á eigið mál sem mestu skiptir. Enn meira er þó ef til vill vert um þau
nítján smáljóð sem hann þýðir eftir Björling. Það er undravert hve vel Einari
Braga hefur tekizt, þar sem honum tekst bezt, að orða upp á nýtt persónulegan
ljóðheim hins sérkennilega skálds, og líklegt er að slík verkefni sem þetta
reynist mikilsverðust hans eigin Ijóðagerð. Areiðanlega er það engin hending
hve ýmiskonar náttúrulýrik er snar þáttur íslenzka nútímaljóðsins. Persónu-
legt tilfinningaríki virðist einatt hugleiknasta yrkisefni og ljóðræn náttúru-
lýsing handhægasti miðill þess. Þessi sami háttur þeirra, hvors með sínu alls
ólíka móti, hefur án efa laðað Einar Braga að þessum tveimur höfuðskáldum
skandinavísks módernisma.
Olíklegt er annað en að einhverja lesendur sem kynnzt hafa þessum þýð-
ingum fýsi að fá meira að heyra. Þess mætti óska að jafn-vandvirkur þýðandi
og Einar Bragi er hefði unnið skipulega að því að þýða og kynna sænska og
finnsk-sænska nútímaljóðlist. En þótt þýðingar nútímaskálda á íslenzku séu
allmiklar að vöxtum og fjölbreyttar efnislega er hitt ekki síður eftirtektarvert