Skírnir - 01.09.1996, Síða 8
Frá ritstjórum
„Þannig háttar nú til í samfélagi voru, að útlimirnir hafa verið sniðnir af
búknum og ráfa um sem stjórnlaus skrímsli, - góður fingur, háls, magi
eða olnbogi, en hvergi maður.“ Með þessari myndlíkingu greindi banda-
ríski hugsuðurinn Ralph Waldo Emerson þann vanda aukinnar sérhæf-
ingar sem við honum blasti á nítjándu öld og hann grunaði að yrði höf-
uðvandi tuttugustu aldarinnar. Honum þótti sem sérhæfingin breytti
manneskjum í ómennska líkamsparta - að allir einstaklingar yrðu einnar
víddar. Lausnin sem Emerson boðaði var einkar róttækt frjálslyndi, þar
sem hart er lagt að hverjum einstaklingi að feta sína eigin leið, að líta á
sjálfan sig sem nýtt og ókannað náttúruafl - og um leið lagði hann
dæmafáa áherslu á sjálfsaga og sjálfstraust. „Allt sem er vandað og full-
komið glæðir nýja von,“ skrifar einlægur aðdáandi Emersons, þýski
heimspekingurinn Friedrich Nietzsche. Og það eru ekki síst góðar rit-
gerðir og bækur sem glæða nýja von í brjósti Nietzsches; valda því að
manninum spretta vængir.
Orða má hlutverk menningartímarita með hliðsjón af hugmyndum
þeirra Emersons og Nietzsches. Markmiðið er þá að skerpa sýn þeirra
sem þegar hafa gott nef, eða efla heyrn þeirra sem hafa góð, en ef til vill
of stór, augu. Menningartímarit eru tilraun til að gera manninn mennsk-
ari, tilraun til að grafa undan þeim veggjum sem af einhverjum ástæðum
eru reistir á milli manna sem starfa á ólíkum sviðum samfélagsins. Til
þess að svo megi verða þarf að lesa tímaritin með þeim hætti sem þeim
hæfir; með opnum huga og leitandi. Litlu er áorkað ef lesendur kynna
sér aðeins það efni sem fellur best að því skynfæri sem þeir hafa þroskað
mest.
Hausthefti Skírnis er að þessu sinni með rómantísku ívafi. Hér má
finna greinar um hugtakið rómantík í íslenskri bókmenntaumræðu 19.
aldar, ásjónur ástarinnar í nýrómantískum ljóðum Davíðs Stefánssonar,
og rómantíska túlkun Þjóðverja á íslenskum Eddum og áhrif hennar á
Niflungahring Richards Wagner. Þá er birt þýðing á margræðri ritsmíð
eftir ítalska heimspekinginn Giacomo Leopardi um mannkynssöguna og
mannlegar ástríður. I Skírnismálum er fjallað um þróun háskólamála hér
á landi auk þess sem tveir heimspekingar skiptast á skoðunum um laus-
læti. Annar mælir gegn lauslætinu, hinn bregst til varnar. Einnig eru í
heftinu greinar um sannleiksgerð frásagna í ljósi Göngu-Hrólfs sögu,
mikilvægi Hallberu í Urðarseli fyrir skilning á Sjálfstœðu fólki; um
skáldskap og lífssýn ljóðskáldanna Stephans G. Stephanssonar og Sig-
urðar Pálssonar og umfjöllun um nýtt fræðirit um leikrænan flutning
Eddukvæða. Skáld Skírnis er Elísabet Kristín Jökulsdóttir og myndlist-
armaður Skírnis er Magnús Pálsson. Mynd af verki Magnúsar,
Minnisvarða um Njálsbrennu, prýðir forsíðu Skírnis og er fjallað ítarlega
um verkið og forsendur þess í heftinu.