Skírnir - 01.09.1996, Page 14
260
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKÍRNIR
í einfaldan og tilfinningaríkan skáldskap (naive und senti-
mentalische Dichtung) frá 1795-1796. Að dómi Schillers var
hvorugt þessara hugtaka einskorðað við ákveðið tímaskeið bók-
menntasögunnar, t.d. taldi hann skáldskap Hómers, Shakespeares
og Goethes einfaldan en skáldskap Evrípídesar, Hórasar og sjálfs
sín tilfinningaríkan. Almennt séð höfðu þó fyrrnefndu bók-
menntirnar meiri snertingu við klassískan skáldskap fyrri alda en
hinar síðarnefndu við rómantískan skáldskap 19. aldar.
Ferðabók Tómasar Sæmundssonar er ekki aðeins merkileg
vegna greinargerðar hans um skáldskap og heimspeki samtímans,
heldur líka vegna lýsinga á þjóðlífi og náttúrufari framandi landa.
Þaðan er skammur vegur að lýsingum Jónasar Hallgrímssonar á
ferðum sínum um Island og athugunum á gæðum náttúrunnar,
landsháttum og fornum minjum. I dönskum dagbókum Jónasar
frá 26. júní árið 1839 finnst að öllum líkindum elsta dæmi um orð
sem er venslað hugtakinu rómantík í riti íslensks manns, en þar
greinir Jónas frá skoðunarferð sinni um Leyningshóla í Eyjafirði.
Þar er honum vísað á gamlan legstað, kallaðan Völvuleiði, og lýs-
ir hann umhverfi hans svo:
Hann er rétt hjá tjörn einni, í grænni brekku, afar fagurri, er veit mót
suðvestri, beint fram undan mynni Torfufellsdals. Á staðnum hefur fyrr
verið mikill kjarrskógur og þótt hann sé horfinn nú, þá hvílir óneitanlega
yfir staðnum einstök kyrrð og rómantísk sumarsæld [har dog Stedets
Beliggenhed unægtelig en hojst rolig og romantisk - idyllisk Karakter] er
sýnir að fornmenn gjörðu sér skýra og rétta grein fyrir náttúrufegurð
sem þessari, því ekki getur leikið á því nokkur vafi að legstaðurinn var
valinn með gaumgæfni og sennilegast af hinum forna grafarbúa í lifanda
lífi eins og oft var raunin. Legstaðurinn sjálfur er nú spilltur og nær því
eyðilagður."
Hér er lýsingarorðið rómantískur notað á þann hátt sem
algengastur var í nágrannamálum okkar á fyrstu áratugum 19.
aldar, þ.e.a.s. um ósnortið land fjarri mannabyggðum sem þótti
hafa til að bera tilkomumikið eða hrífandi svipmót. Sú náttúru-
11 Jónas Hallgrímsson. Ritverk II. Reykjavík 1989, 328-29. (Haukur Hannesson
þýddi.) Danski frumtextinn er prentaður í Jónas Hallgrímsson. Rit III.
Reykjavík 1929-1936, 72.