Skírnir - 01.09.1996, Page 26
272
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKÍRNIR
gegn nýklassisisma fyrri alda heldur líka gegn alþjóðlegum eftir-
líkingum samtímans. A móti þeim stefndi hann norrænum forn-
bókmenntum, þ.e. rómantík heiðninnar (hednisk romantik), í
tveimur alllöngum tímaritsgreinum frá árinu 1846: „Den island-
ske Literaturs Charakteristik“ („Sérkenni íslenzkra bókmennta")
og „Et Bidrag til den gamle nordiske Poesies Charakteristik“
(„Um sérkenni fornnorræns skáldskapar“).36
Grímur er greinilega í miklum vígamóð í þessum skrifum sín-
um. I síðarnefndu greininni gagnrýnir hann jafnvel lærimeistar-
ann Hegel harðlega fyrir að hlaupa yfir fornnorræn trúarbrögð í
trúarbragðaheimspeki sinni og gleyma norrænni skáldlist í fagur-
fræðinni. Að dómi Gríms verður þessi þögn einkar ankannaleg
vegna þess að „þessi sami heimspekingur hefur tekið upp í lýs-
ingu sína á rómantíska skáldskapnum alla meginþætti norræns
skáldskapar" (85). Aðferð Gríms við að sanna þessa skoðun sína
felst í því að greina norrænan skáldskap með kenningar Hegels
um listformin þrjú að leiðarljósi. I fyrsta lagi dregur hann fram
ýmis veigamikil atriði sem eru eins í norrænum skáldskap og
verkum rómantískra (kristinna) höfunda, eins og Dantes,
Shakespeares, Byrons og Oehlenschlágers. Þetta telur Grímur
ekki aðeins ótvíræð teikn um enduróm norræns anda í verkum
rómantísku skáldanna, „Shakespeare var fremur norrænt en krist-
ið skáld“ (86), heldur einnig um kristin áhrif í hinum forna skáld-
skap Norðurlanda. Það gerir hann „algerlega einstæðan í heiðn-
um sið“ (89). I öðru lagi sýnir hann fram á hvílíkt regindjúp er
milli norrænna bókmennta annars vegar og klassískra og sym-
bólskra hins vegar. Um norrænan skáldskap og klassískan segir
hann til að mynda:
Gullaldarbókmenntirnar (grískar, latneskar) hafa til að bera fegurð og
samræmi; norrænar bókmenntir eru háleitar og ómstríðar. I hinum fyrr-
nefndu falla saman andi og form, í hinum síðarnefndu hefur andinn al-
gerlega yfirhöndina. I hinum fyrrnefndu er hið harmsögulega jafnt og
hið hlægilega innan fegurðarmarka, í hinum síðarnefndu sökkur harmur-
inn í hugsun, og það, sem hlægilegt er, snýst í skrípalæti. (91-92)
36 Sbr. Grímur Thomsen. Islenzkar bókmenntir og heimsskoðun. (Andrés
Björnsson þýddi og gaf út.) Reykjavík 1975, 51-82 og 83-173.