Skírnir - 01.09.1996, Page 30
276
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKÍRNIR
sem blómstraði á Norðurlöndunum á fimmta áratug 19. aldar, en
einnig má telja líklegt að þar komi fram áhrif frá þeim vindum
raunsæis sem tóku að blása um evrópskar bókmenntir um svipað
leyti og báru með sér kröfu um að skáld stæðu föstum fótum í
nútíðinni, eins og Grímur segir Bjarna Thorarensen hafa gert, og
lýstu umhverfi sínu og samfélagi á raunsannan hátt.40 Grímur
lagði reyndar mikla áherslu á slíkar lýsingar í greininni „Sérkenni
íslenzkra bókmennta“, en þar benti hann norrænum skáldum á
að ekki væri nægilegt „að láta sig dreyma ofurlítið um það, að
forfeður vorir væru víkingar" til að geta ort um fortíðina, heldur
þyrfti líka „að þekkja, hversu þjóðlífinu var háttað“ og jafnframt
kunna skil á þjóðareðli norrænna manna og heimilis- og fjöl-
skyldulífi þeirra (56-57). Þessi ábending Gríms virðist í fullu
samræmi við áhuga þeirra samtímaskálda hans, sem kennd eru
við skáldlegt raunsæi, að gefa verkum sínum raunveruleikablæ
með ýmsum smáatriðum úr daglegu lífi, einkum þeim sem setja
svip á tiltekna staði og tíma (Lokalkolorit).il
Matthías Jochumsson
Vitað er að ungir íslenskir menntamenn fengu snemma veður af
hugmyndum Gríms um rómantískan skáldskap.42 Þrátt fyrir það
er hugtakið rómantík óþekkt í máli íslenskra manna næstu tvo
áratugi, eða allt fram á miðjan sjöunda áratuginn, þegar það birt-
ist í skrifum Matthíasar Jochumssonar og enskri þýðingu Gríms
40 Þess má geta að Grímur hafði miklar mætur á skáldinu og prófessornum Erik
Gustaf Geijer sem oft er talinn upphafsmaður raunsæis í sænskum bókmennt-
um og nefndi hann „föður nútíma sagnaritunar á Norðurlöndum“. Sbr. Grím-
ur Thomsen. Islenzkar bókmenntir og heimsskoðun, 179. Um tengsl Gríms
við raunsæismenn sjá líka: Andrés Björnsson. „Um Grím Thomsen og raun-
sæið,“ Andvari 118 (1993), 98-109.
41 F. J. Billeskov Jansen telur að áhrif franska rómantismans á danskar bók-
menntir hafi birst skýrast í áhuga skálda á samsettum persónum og sögulegum
staðarlýsingum (Lokalkolorit). Sbr. Danmarks Digtekunst III. Kaupmanna-
höfn 1958, 149.
42 Benedikt Gröndal segir að Grímur hafi gefið bæði sér og fleirum bókina um
nýfranska skáldskapinn veturinn 1843-1844. Sbr. Dxgradvöl. Reykjavík 1965,
86.