Skírnir - 01.09.1996, Page 37
SKÍRNIR
HUGTAKIÐ RÓMANTÍK
283
um kvæði Jóns Ólafssonar, sem oft er talinn frumkvöðull raun-
sæisbókmennta hér á landi, grípur Jónas svo til öllu ótvíræðara
hugtaks þegar hann segir að þau beri með sér „realistiskan“ blæ
(188).
ídealismi - realismi - rómantík
Hér að framan var minnst á þá stefnu í bókmenntum 19. aldar
sem Skandinavar og Þjóðverjar kalla skáldlegt raunsœi og ein-
kenndist af viðleitni manna til að koma á sáttum milli hugsæis
(ídealisma) og raunsæis (realisma). Sýnt þykir að íslensk skáld
hafa snemma komist í kynni við þessar hugmyndir og sum jafn-
vel aðhyllst þær að einhverju leyti. Önnur, svo sem Matthías
Jochumsson, hafa tekið þeim með fyrirvara. I sendibréfi til Stein-
gríms Thorsteinssonar frá 6. maí 1866 ræðir hann um fagurfræði
eins helsta hugmyndafræðings þessa skáldlega raunsæis, Johans
Ludvigs Heibergs, og ekki án háðs, segir að hann kenni „eilífan
þrenningargraut (subjektivitet, sem eigi að identificerast af
objectivitetinu eða realisme + idealisme + objectivrealisme + sub-
jectiv realisme + objectiv idealisme + subjectiv idealisme)“ (33).
Hugtökin ídealismi og realismi urðu fyrst áberandi í íslensku
máli um 1880 og stóðu þau þá yfirleitt fyrir þær skörpu andstæð-
ur sem menn drógu milli eldri skálda og þess skáldaflokks sem
fylgdi Brandesi að málum.51 Matthías Jochumsson víkur t.d. að
hugtökunum í ritdómi um ljóðabók Jóns Ólafssonar Söngva og
kvæði (1877) frá árinu 1879.52 I upphafi fer hann almennum orð-
um um kvæði Jóns og segir á þeim kost og löst. Meðal annars
nefnir hann að þau vanti „auðlegð hins sanna andríkis, þ.e. þau
eru æsingsleg, einstrengingsleg, og hversdagskend (realistisk)“.
Hér hefur lýsingarorðið realistiskur augljóslega neikvæða merk-
ingu. Hið sama verður tæpast sagt um orðið realisti sem Matthías
notar í lýsingu sinni á skáldinu: „Jón er ekki tunglskins eða nátt-
51 Með það í huga hafa bókmenntafræðingar gjarnan sett jafnaðarmerki milli
ídealisma og rómantíkur, en ekki er alls kostar víst að það eigi við rök að
styðjast, sbr. það sem hér fer á eftir.
52 Matthías Jochumsson. „Söngvar og kvæði eptir Jón Ólafsson," Þjóðólfur, 28.
maí 1879, 55.