Skírnir - 01.09.1996, Page 43
SKÍRNIR
HUGTAKIÐ RÓMANTÍK
289
Ahrif Georgs Brandesar
Islendingar kynntust snemma viðhorfum Georgs Brandesar til
rómantísku stefnunnar. Matthías Jochumsson segist hafa staðið
„inniklemdur fyrir framan kné hans“ á fyrsta fyrirlestrinum sem
hann hélt við Kaupmannahafnarháskóla veturinn 1871-1872 um
Meginstrauma í bókmenntum 19. aldar,64 og síðar áttu bæði
Matthías og Hannes Hafstein eftir að kynnast þessum áhrifa-
mikla bókmenntafræðingi persónulega. Það var þó fyrst um og
eftir 1880 sem íslendingar fóru að fylgjast með Brandesi fyrir al-
vöru og ræða um bókmenntakenningar hans. Um þær mundir
fóru áhrif hans sömuleiðis vaxandi í íslenskum bókmenntum og
það virðist mega leiða að því allgóð rök að hann hafi átt talsverð-
an þátt í að móta afstöðu manna til hugtaksins rómantíkur og álit
þeirra á íslenskum skáldum 19. aldar.
Árið 1879 birti Jón Ólafsson þýðingu á stuttum kafla úr
Meginstraumum Brandesar í blaði sínu Skuld,65 Fjórum árum
síðar birtust svo í Suðra Gests Pálssonar þýðingar á tveimur nýj-
um greinum Brandesar, um Esaias Tegnér og Ivan Túrgenev.
Fyrri greinin er ekki síst áhugaverð fyrir þá sök að þar er því
haldið fram að þetta sænska skáld hafi verið „barn 18. aldarinnar,
klassiskur en ekki rómantiskur í anda“. Hann hafi jafnvel haft
„mestu óbeit á skoðun rómantisku skáldanna, er gagnstæð var
skynseminni, að skáldskapurinn væri heilagur innblástur og
opinberun".66 Áður hafði Brandes líka reynt að hvítþvo ýmis
dönsk góðskáld af rómantíkinni. I „Inngangi“ að Meginstraum-
um frá 1871 komst hann t.d. svo að orði: „I kvæðum Oehlen-
schlágers svífur andi skynsemishyggjunnar enn yfir vötnum“.67
Ekki er ólíklegt að mat Brandesar á virtum og viðurkenndum
rithöfundum 19. aldar hafi gefið íslenskum raunsæismönnum
64 Sbr. Matthías Jochumsson. Sögukaflar af sjálfum mér. Akureyri 1922, 201.
65 Georg Brandes. „Sannleikurinn," Skuld, nr. 28 1879, 87-88. (Jón Ólafsson
þýddi.)
66 Georg Brandes. „Esaias Tegnér,“ Suðri, 2. og 4. blað 1883, 7-8 og 15-16.
(Gestur Pálsson þýddi.)
67 Georg Brandes. „Inngangur að Meginstraumum," Skírnir 163 (vor 1989), 101-
102. (Jón Karl Helgason þýddi.)