Skírnir - 01.09.1996, Síða 47
SKÍRNIR
HUGTAKIÐ RÓMANTÍK
293
orðin að trúarsök, því að hugmyndirnar hafi ekki lengur líf og
sögulegan rétt. I ljósi þessa heimfærir Hannes upp á íslenskar
bókmenntir þá skoðun Brandesar á dönskum samtímaskáldskap
að hann sé fastur í feni afturhaldsins, sjúkur og óæskilegur.
Þó að Hannes Hafstein kæmi sér undan að nota hugtakið
rómantík í fyrirlestri sínum lá það alls ekki í þagnargildi um þess-
ar mundir. Eins og kunnugt er svaraði Benedikt Gröndal Hann-
esi nokkrum dögum síðar, þ.e. 4. febrúar 1888, með löngum fyr-
irlestri, „Um skáldskap", sem um leið er rækilegasta umfjöllunin
um rómantík á íslensku máli á öldinni sem leið.77 I upphafi víkur
Gröndal að vanda þess að nota hugtökin Realismus, Idealismus
og Rómantík í umræðu um skáldskap, bæði vegna þess að al-
menningur geri sér enga grein fyrir merkingu þeirra og hins að
tvö síðastnefndu hugtökin séu nú einkum notuð sem skammar-
yrði (9).
Með fyrirlestri sínum leitast Gröndal við að varpa skýrara
ljósi en áður hafði verið gert á þessi hugtök. Jafnframt tekur hann
upp hanskann fyrir ídealisma og rómantík, án þess þó að kenna
sig við þær stefnur eða fordæma realisma í sjálfu sér. Hann skoð-
ar hugtökin þrjú enda öðrum þræði sem heiti á listeigindum sem
séu jafnan fyrir hendi í öllum góðum skáldskap. „Enginn algjörð-
ur Realisti, og enginn algjörður Idealisti hefur nokkurn tíma ver-
ið til“, segir hann, heldur blandast þessar listeigindir alltaf saman
(16). Shakespeare hafi t.d. verið „allsherjar náttúruskáld, Idealist,
Realist, Romantiker alt í einu“ (33) og sama máli gegni um þá
Goethe og Schiller (34). Og skömmu síðar segir Gröndal:
Rómantíkin er sameiginleg eign allra höfuðskálda og í rauninni allra
manna frá alda öðli [...]. Það er sama að segja um Rómantíkina eins og
um Idealismus, að ef þetta vantar í skáldskapinn, þá er ekkert varið í
hann. (39-40)
En um leið og Gröndal færir vörn fyrir ídealisma og rómantík
leggur hann áherslu á gildi realismans fyrir skáldskap, því „ef
menn yfirgefa veruleikann alveg, þá missir skáldskapurinn alt sitt
77 Benedikt Gröndal. Ýmislegt, 8-94.