Skírnir - 01.09.1996, Side 48
294
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKÍRNIR
aðdráttarafl“ (44). Realismi getur því líka verið í rómantík (45).
Með nokkurri einföldun mætti segja að hugtökin ídealismi, róm-
antík og realismi komi í staðinn fyrir hugtökin symbólismi, róm-
antík og klassík hjá Hegel og Grími Thomsen.
Umfjöllun Gröndals um rómantíkina líkist einnig skrifum
Gríms að því leyti að hugtakið er ekki aðeins notað um sígilda
listeigind, sem sé „jafngömul öllum skáldskap" (30) og komi jafnt
fyrir hjá Hómer og Shakespeare sem Heine og Ibsen, heldur er
það líka haft um afmörkuð tímabil bókmenntasögunnar. Hér
greinir Gröndal milli tveggja meginskeiða. Annars vegar er hin
eldri Rómantík miðaldanna sem er „samvaxin kirkjunni og ridd-
araskapnum" (31). Hins vegar er hin nýja Rómantík sem kom
upp í Þýskalandi um aldamótin 1800 og einkenndist af miðalda-
dýrkun en var einnig andóf gegn klassisisma Goethes og ídeal-
isma Schillers (35-37).
I greinargerð sinni um þessa síðari tíma rómantík ræðir Grön-
dal nokkuð um fagurfræðilegan bakgrunn hennar, miðaldadýrk-
unina, náttúruspeki Schellings og hugmyndirnar um sjáandann
eða skáldprestinn sem „hefur lykilinn til hins mystiska undra-
heims“ og „skilur sameiningu hins gjörvalla í guði“ (37). Ljóst er
því að Gröndal einskorðar þessa stefnu við þá höfunda sem Þjóð-
verjar kalla venjulega rómantíkera, t.d. telur hann Heinrich Heine
ekki með, þótt hjá honum sé „töluverð Rómantík". Hann er
„oftast kallaður Realisti, hann er beggja bland“ (37-38). Á þennan
hátt reynir Gröndal að rekja þróunina í evrópskum bókmenntum
og gera grein fyrir því hvernig ólíkar stefnur blandast saman. Hið
sama er uppi á teningnum í umræðu hans um íslenskan skáld-
skap.
Rómantík gengur í gegnum allan íslenskan skáldskap frá því er vjer
þekkjum hann fyrst og alt fram á þenna dag, en þótt einstöku örfáir
menn hafi brugðið út af því, svo sem Stefán Ólafsson, sem hafði raunar
skáldgáfu, en nálgaðist því að vera eintómur Realisti, með því hann kvað
varla um annað en hin lægri hlutföll í lífinu, um hesta, hunda, beljur og
þesskonar. (49)
Eins og Grímur telur Gröndal að norrænn og forníslenskur
skáldskapur, einkum Eddukvæðin og fornaldarsögurnar, ein-