Skírnir - 01.09.1996, Page 58
304
SIGRlÐUR ALBERTSDÓTTIR
SKÍRNIR
venjulega eru kölluð kvenleg einkenni. Tilfinningalíf hans er fíngert og
kulvíst, hann kennir ákaflega sárt til og er fljótur bæði gráts og hláturs
[svo]. Hann óttast kulda og hörku lífsins og biður oft fyrir sjer [,..].4
Svipaðar athugasemdir má finna í mörgum öðrum dómum um
bækur Davíðs og er þessi kvenlega næmi jafnan talin skáldinu til
tekna. I öðrum ritdómi um Svartar fjaðrir er Davíð lýst sem
„heitum, listfengum ofurhuga" sem er í senn „fluggáfaður og
tilfinningaríkur".5 Niðurstaða þessara skrifa er svo til undantekn-
ingarlaust sú að Davíð hafi verið stjarna sinnar samtíðar, ósnert-
anlegur boðberi hugljúfra ásta og rómantískra kennda og virðist
sem slíkur lifa góðu lífi enn þann dag í dag.6
Ekki þarf þó að kafa djúpt í kveðskap skáldsins frá Fagraskógi
til að komast að raun um að þessi glansmynd af Davíð miðast að-
eins við einn þátt höfundarverks hans. Ljóð Davíðs Stefánssonar
eru ekki alltaf ljúf og auðskiljanleg. Stundum eru þau afar sár og
uppfull af flóknum ástríðum, þrungin óhugnaði og djúpri kvöl
sem endurspeglar flókið sálarlíf og bitra reynslu í ástarmálum:
reynslu sem getur breytt ljúfmenni í villidýr. Það villidýr skýtur
víða upp kollinum í kveðskap Davíðs, er öskrandi af reiði,
beiskju og særindum, bítur, slær og drepur.
„Minningþín opnar gamla töfraheima“
í bók sinni Erotismen talar danski fræðimaðurinn Per Stig Möller
meðal annars um þá togstreitu efnis og anda sem er áberandi í
verkum rómantískra skálda.7 Stundum skrifa skáldin í platonsk-
um anda um tvær sálir sem eru ætlaðar hvor annarri, verða ást-
fangnar við fyrstu sýn og viðhalda kærleika sínum til hinstu
stundar. Þessi ást, sem er fyrst og síðast andleg, á rætur sínar að
4 Árni Pálsson: „Davíð Stefánsson: Svartar fjaðrir". Skírnir 94 (1920), s. 217.
5 Ingibjörg Benediktsdóttir: „Davíð Stefánsson frá Fagraskógi: Svartar fjaðrir".
Nýjar kvöldvökur 14 (1920), s. 92.
6 Sjá nánari umfjöllun um viðtökur á ljóðum Davíðs Stefánssonar í óbirtri cand.
mag. ritgerð minni: „Náttúran er alt af heiðin". Háskóli Islands, júní 1996.
7 Erotismen. Den romantiske bevœgelse i Vesteuropa 1790-1860. Kaupmanna-
höfn 1973.