Skírnir - 01.09.1996, Page 72
318
SIGRÍÐUR ALBERTSDÓTTIR
SKÍRNIR
Abba dansar um í skóginum fögur og heillandi, ástríður hennar
eru trylltar og takmarkalausar, hún er komin inn í heim fullkom-
innar óreiðu:
En enginn vissi, hvaðan
hún kom í þennan skóg;
enginn vissi, hvers vegna
hún ærslaðist og hló,
og enginn vissi, hvers vegna
hún bæði beit og sló
Abba-labba-lá er óhugnanleg og heillandi í senn. Menn dragast
að henni líkt og fyrir áhrif töfra og sjá ekki hættuna fyrr en of
seint. Hún kyssir þá kossi dauðans og gerir þá að því sem hún er
sjálf: að vampírum sem dæmdar eru til eirðarlausrar og eilífrar
göngu um heiminn. Hún er ekki óvirk í ástsýki sinni því ólíkt
konunni í „Komdu“ nær hún að seiða til sín menn:
- Og afturgenginn hrópa eg
út yfir land og sjá:
Varið ykkur, veslingar,
varið ykkur, veslingar,
á Abba-labba-lá.
Fróðlegt er að skoða örlög „Obbu-löbbu-lá“, „nornarinnar“
og mannsins í „Óráði“ með hliðsjón af hugmyndum búlgarsk-
frönsku fræðikonunnar Juliu Kristevu um úrköst (abject). Sam-
kvæmt hugmyndum hennar er úrkast hvorki sjálfsvera (subject)
né viðfang (object) heldur finnur það sig á mörkum þessara and-
stæðna. Sú manneskja sem lifir á þessum mörkum dregst að því
óhugnanlega, dauða og tortímingu og hefur þar með truflandi
áhrif á lög og reglu, á það sem við höldum í heiðri. Úrkastið er
bannfært, staðsett utan marka siðmenningarinnar, niðurlægt, fyr-
irlitið og svikið, en það gerir samt stöðuga uppreisn. Samfélagið
hefur hafnað úrkastinu og líkt og fyrir eitthvert lögmál fer það að
hafna sjálfu sér, leiðist út í drykkju, glæpi eða geðsýki.39
39 „Approaching Abjection“. Powers of Horror. Þýð. Leon S. Roudiez, New
York 1982, s. 1-5.