Skírnir - 01.09.1996, Page 82
328
ÁRMANN JAKOBSSON
SKÍRNIR
stendur lesandinn með þeim, fær innsýn í sálarlíf þeirra. En aldrei
Hallberu. Hún er séð af öðrum frá upphafi, fyrsta langa athuga-
semd hennar er í óbeinni ræðu og lesandinn er litlu nær er hún
birtist í annað sinn, þá böggull á hesti: „Lifandi manneskja? Hver
er það? Það er gamla konan frá Urðarseli, dúðuð í sjölum og
pokum söðulvega ofaná reiðíngnum“ (152). Þótt aðeins sé hægt
að kynnast Hallberu með því að virða hana fyrir sér er jafnvel
það erfiðleikum bundið því að hún lítur ekki upp, horfir á fólk
niður með nefinu (136, 158, 167, 386, 394) og við matborðið snýr
hún baki við öðrum (172). Það er eins og Hallbera sé í feluleik
við heiminn og lesandann. Tilfinningalíf hennar er hulið. Þær fáu
vísbendingar sem um það eru gefnar reynast misvísandi, rífa hver
aðra niður. Hið fyrsta sem vakið er athygli á í fari hennar eru
harka og virðuleiki, hana skortir „á í viðkvæmni" (136). Hún
hlakkar yfir dauðleika Bjarts í einum fyrstu samræðum sem hún
stendur í (158) og beitir hörku við að vekja Ástu (170-71). Hjá
henni er „aldrei gaman og aldrei leiðinlegt", eins og Helgi segir er
hann furðar sig á þeirri ró sem hún sýnir við lát dóttur sinnar
(298). Harkan birtist í vinnusemi og þrautseigju, gamla konan er
ekki fyrr komin í Sumarhús en hún fer að „amstra í bænum“
(153), vaknar fyrst og fer seinust í háttinn (166-67, 351).
En undir hörkunni er annað lag sem kemur smám saman í ljós
er líða tekur á sögu. Þegar kýrin kemur fær lesandinn hugmynd
um sálarlíf konu sem ekki var víst að hefði sálarlíf. Hallbera sýnir
skepnunni óvænta blíðu:
Gamla konan haltraði frammá prikið sitt til móts við hana, - blessuð
skepnan, tautaði hún, veri hún velkomin.
Og kýrin hnusaði á móti gömlu konunni, það var eins og hún kann-
aðist undir eins við slíka konu, reyndi aftur og aftur að reka upp öskur
til að heilsa henni.
Blessuð skepnan, muldraði gamla konan enn, henni datt ekki í hug
neitt annað, svo vingjarnlega ávarpaði hún annars eingan. Hún strauk
henni um hélaðan vángann og kýrin knurraði lángt niðrí hálsinum. Þær
skildu strax hvor aðra. (197)
Það eru dýr sem afhjúpa misræmi yfirborðs og innrætis Hallberu
gömlu, kýrin og kötturinn sem Bjartur fær sér við hinum mann-
lega rottugangi í Sumarhúsum: