Skírnir - 01.09.1996, Page 91
SKÍRNIR
HINN BLINDI SJÁANDI
337
þeir með að vera einir. Hallbera er á hinn bóginn sjálfri sér næg,
borðar ein og hleypir engum að sér, skilur samt aðra. Að finna til
með öðrum er að viðurkenna málamiðlanir, draga úr sjálfstæðinu,
fjötra sig. Með því að lifa öðrum setur einstaklingurinn sér tak-
mörk. Sampíningin er fjötur á hömlulausa einstaklingshyggju,
það sem gerir manninn mennskan. Sampíningin er útkoman úr
jöfnu Sjdlfstæðs fólks og Hallbera á Urðarseli veldur því að sú
lausn er fyrir hendi.
4. Hvað merkir Hallbera?
Hallbera er þannig lykill að túlkun Sjdlfstæðs fólks og getur leitt
til skilnings á hugmyndum Halldórs Laxness og höfundarverki
almennt. Nú er ljóst að skáldið hefur reynt að lýsa hinu almenna
og kallar persónur sínar „mannlegar ódeilistölur“.18 Því ætti að
vera leyfilegt að álykta út frá Hallberu um hugmyndir skáldsins.
En erfitt virðist að finna henni stað í hugmyndakerfi skálds sem
er undir áhrifum flestra menningarstrauma 20. aldar. Arni Sigur-
jónsson nefndi taó í sinni umfjöllun en vildi þó fremur draga
fram aðrar hliðar Hallberu. Um taóisma Halldórs Laxness hefur
nokkuð verið fjallað.19 Víst er að mýkt Hallberu er endingarbetri
en styrkur Bjarts og öfgaleysið í „hinu gráa“ fellur vel að taó.
Hún er þó um margt ólík þeim persónum skáldsins sem mest eru
litaðar taó, þ.á m. hjónunum í Brekkukoti og pressaranum í
Dáfnaveislunni. Rödd hennar er grimm og ágeng, laus við sí-
bernsku taóismans. Skáldið virðist hafa svipaða afstöðu til taós og
annarra hugsjóna sem það aðhyllist um dagana, súrrealisma,
marxisma og freudisma, velur úr það sem hentar.20 Það sem Hall-
dór heillast af í taó eru efahyggja og þversagnir, hið mjúka sigrar
hið harða. Dæmi um slíka þversögn er eftirlætissetning Halldórs
18 Halldór Laxness. Skáldatími, 233.
19 Stutt en greinargott er yfirlit Hallbergs („Litla bókin um sálina og Halldór
Laxness." TMM 23 (1962), 119-31).
20 Sbr. það sem Halldór segir um súrrealismann, að hann sé vandhæfur óbland-
aður en nauðsyn í einhverjum mæli (Kvœðakver. [4. útg.] Rvík 1987, 142).