Skírnir - 01.09.1996, Page 92
338
ÁRMANN JAKOBSSON
SKÍRNIR
úr taó: „í hjólnöfinni mætast þrjátíu pílárar, en væri það ekki fyr-
ir öxulgatið stæði vagninn kyr.“21
Er Hallbera þá „fjallræðufólk" eins og skáldið hefur sagst
skrifa um?22 Oneitanlega er hún sæl í hógværð sinni en sú hóg-
værð er öll á yfirborðinu. Hallbera þykist vera baksviðs en reyn-
ist vera á miðju sviði. Trúlega eru það þversagnir Fjallræðunnar
sem heilla Halldór Laxness. Vissulega munu þeir sem eru hóg-
værir erfa landið en ekki vegna hógværðar heldur skynsemi. Er
Hallbera þá tilvistarsinni, eins og Arni Sigurjónsson gefur í skyn?
Tilvistarstefnan tókst á við vandamál tilvistarinnar, fjarstæður og
merkingarleysi. Lausnin var að maðurinn fyndi tilverunni merk-
ingu en hafnaði fyrirframlausnum. Sjálfið (pour-soi) væri ekki
vera heldur „hola í verunni“, eins og gatið í vagnhjólinu.23 Að því
leyti er Hallbera tilvistarsinni, hún tekst á við tilveruna, tekur
henni eins og hún er, hefur aldrei lagt í vana sinn „að búast við
neinu sérstöku" (330). Það sem hún á einkum sameiginlegt með
tilvistarstefnunni eru vantrúin á töfralausnir og vitundin um
þversagnir tilverunnar.
Er Hallbera þá dæmi um fjarstæðu eða furðuraunsæi? Það
yrði ekki í fyrsta sinn sem furðuraunsæi finnst í verkum Halldórs
og fjarstæðan eykst með árunum.24 Vissulega minna mörg við-
brögð Hallberu og tilsvör á fjarstæðu. Kaffidrykkjan með sykur-
glöðu huldufólki (138) gæti átt heima í skáldsögu eftir Marquez.
Fyrst og fremst eru það þó þversagnirnar sem þessar stefnur eiga
21 Svo er þessi setning þýdd af skáldinu í smásögunni „Temúdjín snýr heim“ (Sjö
töframenn. Rvík 1942).
22 T.d. Halldór Laxness. Seiseijú, mikil ósköp. Rvík 1977, 79-80. Gunnar Krist-
jánsson („Liljugrös og járningar. Um séra Jón prímus.“ Halldórsstefna, 47-48)
hefur lagt út af þessu.
23 Stutt umfjöllun um tilvistarstefnu er hjá Ronald N. Stromberg (European In-
tellectual History Since 1789. [5. útg.] Englewoods Cliffs, New Jersey 1990,
282-91, 301-305) en um fórsendu hans, fyrirbærafræðina, hjá Terry Eagleton
(Literary Theory. An Introduction. Oxford 1983, 58 o.áfr.).
24 T.d. eru leikrit hans frá 7. áratugnum fjarstæðukennd (Stefán Baldursson.
„,Uppþornuð sítróna og tvær rauðar jólakúlur." Fáein orð um leikrit Halldórs
Laxness." Sjö erindi um Halldór Laxness. Rvík 1973). Sbr. einnig José A.
Fernandez Romero. „Endurfundir í suðrinu." Halldórsstefna, 117-18. Peter
Hallberg. „Úr vinnustofu sagnaskálds. Nokkur orð um handritin að Atóm-
stöðinni." TMM 14 (1953), 156-57.