Skírnir - 01.09.1996, Síða 103
SKÍRNIR
FÓTALEYSI GÖNGUMANNS
349
neðan á stúfana á Hrólfi og orðnir honum „svo hægir og mjúkir
sem hann hefði á þeim aldri sár verið“, fyrir dálítinn tilverknað
Mönduls dvergs. Síðan er ekki annað en það eftir af kaflanum, að
Hrólfur geri upp við þennan lækni sinn nú til bráðabirgða, og
hann ákveður að Möndull skuli með sér fara til Garðaríkis, ef af
för sinni þangað verði (öðru sinni); Möndull játar þessu, en
kveðst nú hverfa til sinna heimkynna, og er þar með horfinn. Það
er verið að losa hann út af sjónarsviði, og um leið undirbúa að
hann komi aftur síðar, til Garðaríkisfarar.
Það er ekki fráleitt að telja ágræðslu löngu afhöggvinna fóta
Hrólfs það fráleitasta eða/og ótrúlegasta í sögunni, þegar á er
hlýtt með raunveruleikatömum eyrum, eða a.m.k. á meðal þess
ósennilegasta. Einmitt hér kemur þá til orðræða formálastykk-
isins um, að maður hljóti að segja það sem hann hefur séð eða
heyrt, þótt það séu ótrúlegir hlutir, enda sé vandi á, að mótmæla
frásögum fyrri fræðimanna, sem vel hefðu getað sagt öðruvísi frá,
ef þeir hefðu viljað. Og hér í beinu framhaldi:
Hafa þeir og sumir spekingar verið, er mjög hafa talað í fígúru um suma
hluti, svo sem meistari Galterus í Alexandrí sögu eða Umeris skáld í
Trójumanna sögu, og hafa eftirkomandi meistarar það heldur til sann-
inda fært en í móti mælt að svo mætti vera.
Og hér að lokum formálastykkisins:
Þarf og engi meira trúnað á að leggja, en hafa þó gleði af á meðan hann
heyrir.
I þessum síðustu orðum felst, að krafa sögunnar til áheyrenda
sinna sé aðeins sú að leggja vantrú sína (á það sem ekki gæti kom-
ið heim við venjulega reynslu af raunheiminum) frá sér á meðan
sögunnar sé notið. Sú afstaða „eftirkomandi meistara“ sem lýst er
í orðunum þar á undan er nánast alveg sú sama, þegar grannt er
um það hugsað. Og það er einmitt sú afstaða sem er lágmarksfor-
senda þess að táknum (margs konar, eða hvers konar, t.d. tákn-
myndum) verði beitt í skáldskap og að þau nái hlutverki sínu.
Höfundur Göngu-Hrólfs sögu tel ég að gangi í orðunum um
tal fornra meistara í fígúru svo langt sem gengt megi heita í átt til