Skírnir - 01.09.1996, Page 131
SKÍRNIR
GÖTTERDÁMMERUNG
377
ljómaði af hrifningu yfir að hafa uppgötvað veröld sem ég hafði fram að
þessu lifað í grunlaus og blindur eins og barn í kjöltu móður sinnar.67
Þessi ummæli sýna að lestur Wagners og úrvinnsla á goðfræði-
legu norrænu efni er tekin að þróast í ákveðna átt. „Brotabrot
horfinnar veraldar“ vísa til þess að hinn goðfræðilegi arfur var
mjög brotakenndur, en einmitt í því lá aðdráttarafl hans. Þar opn-
aðist leið til að skapa nýja mýtu á grundvelli annarrar og eldri, að
endurvekja hin fornu minni. I rómantíkinni var keppst við að
skýra eddutexta sem sundurleitar leifar mikils og flókins trúar-
og heimspekikerfis sem náskylt væri indverskri speki. Þar fór
fremstur í flokki Islendingurinn Finnur Magnússon en hið mikla
verk hans Eddalæren og dens Oprindelse (1824-1826) var í háveg-
um haft í Þýskalandi. Wagner vildi að vísu ekki endurgera hin
upphaflegu „fræði“ eins og málvísindamenn og trúarbragðafræð-
ingar rómantíkurinnar. En hugmyndin um eind eða samræmi í
grárri forneskju gat bent til að einstakar sögur og minni væru
hluti af stórri samfelldri goðsögn í líkingu við þá sem Wagner
vildi skapa í Hringnum. Það hlaut því að skipta miklu fyrir hann
að afla sér sem mests efniviðar sem hann gæti svo valið úr. Eink-
um var dýrmætt að geta kynnst þessu efni í upprunalegri mynd
en ekki þar sem aðrir voru búnir að setja það í listrænt samhengi.
Að því er snerti germanska goðafræði hlaut Wagner þá að líta til
texta eins og eddukvæða sem menn töldu að varðveittu gömul og
heiðin viðhorf. En verk á borð við Deutsche Mythologie var
ómetanlegt í þessu samhengi því að það dró hið goðsögulega
fram úr ólíkustu textum, sótti innsta merkingarkjarnann úr sögu-
legum verkum eða listrænum, hvort sem um var að ræða klassísk
rit, miðaldaverk, fornnorrænar bókmenntir eða þjóðtrú. Víða í
Hringnum má skynja nálægð Deutsche Mythologie, ekki í at-
burðarás, heldur í úrvinnslu einstakra efnisatriða. Þannig er í
kaflanum „Weise Frauen“ bent á ákveðið samhengi (sem á rætur í
orðalagslíkingum) milli völvunnar („hin frum-vitandi“, „vitrasta
kona heims“; Siegfried III, 1), valkyrjanna og Völsunga, sem
67 Wagner, Mein Leben, bls. 273.