Skírnir - 01.09.1996, Page 147
SKlRNIR
AMERÍKU-STEPHÁN
393
móti.9 Hér á eftir mun ég athuga nánar hvernig Stephan endur-
nýjar tengsl íslensks máls, menningar og hugmynda við kana-
dískan veruleika sinn, með því að leita uppi sameiginlegan
merkingarflöt og endurskoða togstreituna milli tveggja mál- og
menningarheima.
Útlegð og festarmdl
Vesturförum gat engan veginn dulist að þegar þeir voru nefndir
útlagar gaf það til kynna að þeir hefðu svikið land sitt með því að
yfirgefa það þegar kjör krepptust og mest reið á samheldni í sjálf-
stæðisbaráttunni. Þar með væru þeir útlægir landráðamenn. I stað
þess að víkjast undan útlegðarámælinu valdi Stephan þann kost-
inn að „afbaka“ eða afbyggja hefðbundna merkingu orðsins „út-
lagi“ svo það yrði merkingarbær lýsing á reynslu innflytjandans
sjálfs.
„Utlegðin“ er ljóð sem Stephan kvað árið 1891, þegar hann
hafði búið tvö ár í Markerville í Albertafylki í Kanada, en þá voru
átján ár frá því hann fluttist með foreldrum sínum til Bandaríkj-
anna. Þar segir Stephan m.a.:
Ég á orðið einhvern veginn
ekkert föðurland,
þó að fastar hafi um hjartað
hnýtzt það ræktar band,
9 Sjá Máttugar meyjar; Islensk fornbókmenntasaga (Reykjavík: Háskóli íslands,
Háskólaútgáfan, 1993) 14. Bókin rekur afdrif kvennamenningar í íslenskum
fornbókmenntum og seinni tíma umfjöllun um þær með því að rannsaka áhrif
„þöggunar", þegar ríkjandi mál- og menningarhópur „stjórnar því hvernig
hugsanir og hugmyndir fá tjáningarform í orðum" (14). Áhrif þöggunar koma
fram í „mælgi eða miklum endurtekningum", „fámælgi eða þögn“ (14), gráti,
slúðri, eða ýmisháttar aðhlátri og skrumskælingu (161-78). Hugtakið „muted"
kemur upphaflega frá Charlotte Hardman, en skilgreining Helgu á „þöggun“
styðst við Edward Ardener, í „Belief and the Problem of Women" og „The
Problem Revisited“, og nánari útfærslu Shirley Ardener í formála bókarinnar
Perceiving Women, ritstj. Shirley Ardener (London: Halsted Press Books,
1975).