Skírnir - 01.09.1996, Page 156
402
GUÐRÚN BJÖRK GUÐSTEINSDÓTTIR
SKÍRNIR
Við trogið situr England og er að hræra í blóði
með öllum sínum kaupmönnum og bæjargötulýð. (III: 171)
I greininni „Nikulásarmessa“ bendir Stephan á málsöguleg tengsl
íslenska orðsins „að slátra“ og þess enska „to slaughter“, og segir
myndmál kvæðisins hafa sprottið upp af þeim: „Enskan heldur í
orðið enn, næstum því eins stafsett og framborið og við gerum.
Blöðin ensku nefna það ,mikið slátur', þegar stórt mannfall varð í
stríðinu. Eða þau notuðu franskan bróður þess: butchery, sem
þýðir það sama“ (4: 365). Lykilorð kvæðisins og titill þess,
„Sláturtíðin", er því samstofna á íslensku og ensku; myndmál
kvæðisins tekur mið af íslenskri merkingu orðsins, en í enskum
reynsluheimi fær það nýja merkingu: stríð.
Þessum mál- og merkingartengslum lýstur saman í kvæðinu,
þar sem Stephan færir stríðið í myndbúning haustverka íslenskrar
bændamenningar. Evrópsk hagsmunaöfl stríðsins eru persónu-
gerð sem slátrari, „butcher“, en aðföngin í saltkjötstunnurnar eru
mannabúkar brytjaðir í spað. Ensk hagsmunaöfl róa undir og
gera sér einnig mat úr stríðinu; þau sjá um blóðmörsgerðina og
hræra í blóðtroginu. Stephan segir í „Nikulásarmessu“: „Að því
hefur verið fundið, að sláturverk hafi verið ið ,ljótasta‘ á Islandi.
Getur vel verið, en mér þykir ljótara að slátra mönnum en sauð-
um“ (4: 365). Grótesk myndhverfing Stephans afhjúpar á sláandi
hátt þann hrottaskap og mannfyrirlitningu sem tungumálið fer að
dylja þegar stríð er í daglegri umræðu og óhugnaðurinn hverfur
undir yfirborð klisjukenndra endurtekninga hversdagsleikans. Is-
lensk sveitamenning er í fullri andstöðu við evrópska borgar-
menningu: bóndinn slátrar sauðum sér til lífsviðurværis en borg-
armenningin „myrðir" og étur börnin sín í gróðaskyni.
Átök milli íslenskrar og bresk-kanadískrar menningar eru af-
gerandi í kvæðinu „Fjallkonan, til hermannanna, sem heim
koma“, sem áður var rætt, en þar afbyggir Stephan jafnframt
menningarátökin með því að færa þau í víðara samhengi. Osk
Fjallkonunnar um að „kyrrð og kös“ geymi fallna hermenn er
stingandi ítrekun á siðferðisdómnum yfir þeim sem tóku þátt í
stríðinu. Þá ósk skýrir Stephan í „Gáði seint að reiðast!" með því
að vitna til lýsingar Bandaríkjamanns á þeim hrúgöldum manna-