Skírnir - 01.09.1996, Síða 170
416
GIACOMO LEOPARDI
SKÍRNIR
að gera hana að veruleika, og alls kyns óskilgreinanlegar og óræð-
ar ímyndanir sem hann sjálfur gat engar eftirmyndir gert af í
raunveruleikanum, enda þótt hann hefði gjarnan viljað uppfylla
þessa svíðandi þrá manna.
Með þessum aðgerðum endurreisti og bætti Júpiter lundarfar
manna og í hverjum og einum vaknaði nú að nýju þakklætið og
kærleikurinn í garð lífsins, já ekkert minna en trúin á fegurð og
ómælanleika jarðnesks heims ásamt þeirri kæti og undrun sem
hann vakti. Þetta ágæta ástand varaði lengur en hið fyrra, einkum
vegna þess tímamismunar sem Júpiter hafði innleitt á milli
fæðinga, en þannig gátu kólnaðar sálir, sem þreyttar voru á
reynsluheiminum, huggað sig við að virða fyrir sér eldmóð og
vonarneista yngri kynslóðanna. I framrás tímans sneri þó
nýlunduskorturinn aftur og þá er lifnuðu og staðfestust leiðindi
og verðmætaleysi lífsins að nýju, hröpuðu mennirnir í slíkt
hryggðarástand að þar fæddist, svo sem trúað er, sá siður er sögur
herma að fornar þjóðir hafi haft í heiðri og varðveitt, að við fæð-
ingu hefðu safnast saman skyldmenni og vinir þeirra til að gráta
hinn nýborna, og að andlátsdagar hefðu verið haldnir hátíðlegir
með veislum og ræðuhöldum þar sem hinum látna voru færðar
hamingjuóskir með fráfallið. Loks sneru allir hinna dauðlegu til
guðleysis, annað hvort vegna þess að þeim virtist sem þeir fengju
enga áheyrn hjá Júpiter eða vegna þess að eymdirnar eru þess eðl-
is að þær forherða og spilla jafnvel albestu sálum og fá þær til að
glata ást á heiðarleika og réttvísi. Þess vegna blekkja þeir sig sem
telja óhamingjuna fæðast af ranglæti og afbrotum sem framin eru
gegn guðunum; illska manna verður þvert á móti aðeins rakin til
þeirra hörmunga er þeir hafa sjálfir þurft að þola.
Eftir að guðirnir refsuðu hinum dauðlegu fyrir ofstopann með
syndaflóði Devkalíons og hefndu um leið fyrir vanvirðinguna,
sátu Devkalíon og Pýrrha, sem ein höfðu lifað af þetta alheims-
skipbrot tegundar okkar, á klettatindi og kölluðu til sín dauðann
af einlægri þrá án þess að óttast eða harma eigin örlög, enda sam-
mála sín á milli um að ekkert myndi gleðja mannkyn frekar en að
á því yrði með öllu slökkt. Engu að síður, þar sem Júpiter skoraði
á þau að bæta úr einmanaleika jarðarinnar og þau þó svo örvilnuð
og full forsmánar í garð lífsins að þau megnuðu ekki að standa að