Skírnir - 01.09.1996, Page 186
432
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
ingu á hegðun.9 Síðan snúa þessir sömu heimspekingar vörn í
sókn: lauslæti geti, að minnsta kosti í mörgum tilfellum, verið
auðnuvegur en ekki glapræðis-. Eitt er nú fyrir sig að það sé
skemmtilegt meðan á því stendur, sem síst beri að lasta; en þar
fyrir utan hafi lauslætið menntagildi í tvennum skilningi: það
kenni fólki amorsbrögð sem komi að góðum notum við að gleðja
hinn væntanlega maka, þegar þar að kemur, og það temji iðkend-
unum víðsýni með þeim hætti sem John Stuart Mill benti á að
ætti sér stað hjá fólki sem kynntist af eigin reynd ólíkum
lífsháttum.10
Nú verð ég að vísu að viðurkenna að mér sýnast talsmenn
lauslætis ekki að sama skapi beittir í sókn og þeir eru sleipir í
vörn. Eg hef þannig enga rannsókn séð sem leiðir í ljós að bólfimi
aukist í réttu hlutfalli við fjölda bólfélaga; hef raunar trú á því að
þar sé náttúran náminu ríkari. Og jafnvel þótt nám sé nauðsyn er
ekki þar með sagt að það krefjist fjöllyndis. Hefði ég þannig, að
breyttu breytanda, orðið betri ökumaður með því að læra ekki
eingöngu 14 klukkustundir á Fordinn hans Kjartans ökukennara
heldur einnig á Mözdu og Volvo hluta tímans? Eg er að auki ef-
ins um að birtan sem talsmennirnir segjast þiggja frá kenningum
Mills sé nema mýrarljós. Mill gerði sem frægt er greinarmun
ánægjuefna eftir verðleikum þeirra sem traustra, varanlegra gleði-
gjafa; og naumast hefði hann talið skammvinna skynnautn til
hinnar æðri tegundar ánægju. Þá er ekki heldur rétt að Mill hafi
mælt með því að fólk prófaði alla lífskosti sem það kæmist yfir í
lífinu; hann mælti til dæmis sérstaklega gegn ákvörðunum sem
þrengdu eða útilokuðu aðra kosti, þegar til lengri tíma væri litið,
svo sem þeirri að selja sjálfan sig mansali* 11 - og hann hefði ugg-
laust ráðið okkur gegn eiturlyfj afikti með sömu rökum.12 Smekk-
urinn sá sem kemst í ker keiminn lengi eftir ber. Málsvarar laus-
lætis verða fyrst að sýna fram á að lauslæti dragi enga óafturkræfa
9 Sama rit, bls. 151.
10 Sama rit, bls. 150-53.
11 Sjá Frelsið (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1970), þýð. Jón Hnefill
Aðalsteinsson og Þorsteinn Gylfason, bls. 182.
12 Ég ræði þetta atriði og fleiri skyld í 6. hluta „Frelsis og nytsemdar",
Þroskakostir (Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði, 1992).