Skírnir - 01.09.1996, Page 190
436
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
hann lofar séu óbrotgjarnari en vant er); meinið er, eins og fram
hefur komið, að þegar „hjartað logar sem heitast má fyrir hringa-
þöll“ þá er það fyrir þessari hringaþöll en ekki annarri, hversu
kostum prýdd sem sú síðarnefnda kann að vera. Heimspekingar
hafa reynt að skýra þennan óviðjafnanleik ástarinnar með ýmsu
móti, allt frá hagsýnni tregðu manna til að draga til baka „fjár-
festingu" sína í ákveðinni persónu18 til þess að hin elskaða hafi
ekki aðeins verðmæti í sér fólgið heldur einnig tryggðmæti, þ.e. að
ást manns sé ekki aðeins á þeim eiginleikum sem búa í persón-
unni heldur einnig hinum sem maður hefur sjálfur léð henni með
ást sinni.19 Hver sem skýringin kann að vera er ljóst að þetta
kjarnaatriði ástarinnar verður ekki virt að vettugi að ósekju.
Annað atriði sem ástarfræðingum virðist koma nokkuð ásamt
um verður best kynnt til sögu með því að vitna aftur í
Odauðleika Kunderas. Söguhetjan Agnes hafði ímyndað sér
nokkurs konar ástarpróf: „spurt er hvort maður óski þess að
vakna til annars lífs eftir dauðann. Ef sá sem spurður er elskar
í raun og veru fellst hann ekki á það nema með því skilyrði
að hann hitti aftur þann sem hafði verið lífsförunautur hans.“
(Þýð. Friðriks Rafnssonar.) Raunverulegri ást fylgir viss sjálfs-
gleymsku- og sameiningarhvöt. „Eg er Heathcliff", sagði Cathy í
Fýkur yfir hæðir á hátindi ástar sinnar. Sá sem elskar vill má út
mörkin milli sín og hins elskaða, eignast sameiginlega sjálfskennd
með honum.20 Simone de Beauvoir heldur því að vísu fram að
einungis konum sé fært að sleppa öldungis taki á eigin sjálfi til að
öðlast órjúfanlegan samruna með ástmanni sínum; karlar hafi
alltaf einhvern andlegan vara á sér þó að þeir rugli saman reytum
sínum og hinnar elskuðu að öðru leyti.21 Kannski er það vegna
þess að konur eru „ofnar úr tunglsljósi og þangslikju", eins og
fram kemur í Vefaranum mikla frá Kasmír. Hitt skiptir þó meira
máli að jafnt fyrir karla sem konur þá er ástin viss jafnvægisleit
18 R. Nozick kynnir m.a. þennan kost í „Love’s Bond“, The Examined Life
(New York: Simon and Schuster, 1989).
19 Irving Singer hefur sett fram volduga kenningu um þetta efni; sjá t.d. grein
hans „Appraisal and Bestowal" í Philosophical Perspectives on Love and Sex.
20 Sjá t.d. R. C. Solomon, „The Virtue of (Erotic) Love“ í sama safnriti.
21 „The Woman in Love“, sama safnrit, bls. 213.