Skírnir - 01.09.1996, Page 195
SKÍRNISMÁL
Til varnar lauslæti
i
haa? ætlar maðurinn að flytja vörn fyrir lauslæti? Siðferðilega
vörn? Er lauslæti ekki ódygð? Hvernig er hægt að verja ódygð frá
sjónarhóli siðferðisins?*
Það að lauslæti sé löstur eða ódygð er skilgreiningaratriði, eða
því sem næst. Og ég sem siðprúður maður ætla að sjálfsögðu ekki
að halda því fram að ódygð sé siðferðilega verjandi. Ég tel aftur á
móti að ýmislegt sem flokkast undir lauslæti sé siðferðilega mein-
laust - jafnvel siðferðilega hollt - og í þeim skilningi mun ég verja
lauslæti: Ég mun verja siðferðilega meinlaust atferli sem er stund-
um, eða venjulega, fordæmt sem lauslæti.
II
Segja má að í fyrirlestri Kristjáns Kristjánssonar, „Gegn lauslæti“,
sem einnig er birtur í þessu hefti Skírnis, sé rætt um lauslæti í
tvennum skilningi: í hversdagslegum skilningi og í heimspekileg-
um. í daglegu lífi er talað um lauslæti út frá tilteknum forsendum
og menn beita tilteknu lauslætishugtaki: hvunndags lauslætishug-
takinu, ef svo mætti að orði komast. Þetta hugtak, og þær for-
sendur sem menn virðast oft gefa sér leynt eða ljóst um lauslæti,
eru frekar loðnar. Þess vegna smíða menn oft skýrari hugtök í
heimspekilegum umræðum og skilgreina lauslæti, eins og Krist-
ján gerir í sínum lestri. En þótt hvunndagshugtakið sé loðið, og
jafnvel á reiki, er það ekki inntakslaust. Inntak þess skiptir nefni-
lega máli.
Eg vil undirstrika tvennt sérstaklega. I fyrsta lagi, eins og ég er
reyndar búinn að nefna, felur hugtakið í sér að lauslæti sé löstur
eða ódygð, og ámælisvert frá siðferðilegum sjónarhóli. Aristóteles
Flutt á ráðstefnu um lauslæti sem haldin var á vegum Háskólans á Akureyri 7.
september 1996. Ég vil þakka öllum skipuleggjendum, ræðumönnum og
áheyrendum fyrir þrælskemmtilega og fróðlega ráðstefnu. Vilhjálmi Árnasyni,
Þorsteini Gylfasyni og ritstjórum Skírnis þakka ég góð ráð.
Skírnir, 170. ár (haust 1996)