Skírnir - 01.09.1996, Síða 196
442
MIKAEL M. KARLSSON
SKlRNIR
fjallar um slík hugtök í Siðfrœði Níkomakkosar. Sem kunnugt er
kenndi Aristóteles að dygð væri sálarhneigð sem velur meðallag-
ið: ,,[D]ygð snýst um [...] athafnir þar sem skefjaleysi og skortur
eru afglöp,“ segir hann, „en meðallagið [...] telst til dygðar."1
Þetta kallast stundum kenning Aristótelesar um meðalhófið. En
„ekki gefa allar athafnir kost á meðallagi,“ segir Aristóteles:
því sumar heita nöfnum sem beinlínis vísa til illsku, eins og hórlífi,
þjófnaður og mannsmorð, því sagt er að allt þetta og þessu líkt sé í sjálfu
sér vont, en ekki aðeins skefjaleysi þess eða skortur. Þess vegna ratar
maður aldrei rétta leið í þessum málum heldur lætur einatt glepjast; að
gera vel eða ekki vel kemur því ekki við hvort maður drýgir hór með
réttu konunni á réttum tíma á réttan hátt, heldur eru einfaldlega afglöp
að gera nokkuð af slíkum toga.2
Samkvæmt hvunndagsskilningi virðist heitið lauslæti vera einmitt
af því tagi sem Aristóteles nefnir hér. Ekki er hægt að stunda
lauslæti með sóma - það er með réttu manneskjunni, á réttum
tíma og á réttan hátt - heldur felur lauslæti í sér ósóma.
Hitt sem ég vildi undirstrika um inntak hvunndagshugtaksins
er að lauslæti sé samkvæmt því öðru fremur löstur kvenna, eins
og Kristján hefur bent okkur á í sínum lestri.3 Venjulega nær
hugtakið ekki til karldýrsins: Við tölum sjaldnast um lausláta
karlmenn, bara um lauslátar konur. Þessu er líkt farið í enskunni.
Enskumælandi menn skilja strax hvað er átt við með orðalaginu
loose woman; það er lauslát kona. En loose man hljómar an-
kannalega og skilst varla án nánari útskýringar.4 Þetta atriði á eft-
ir að skipta svolitlu máli í þessari varnarræðu minni.
1 Siðfrœði Níkomakkosar II, vi: 1106b. í þessum texta er stuðst meira og minna
við þýðingu Svavars Hrafns Svavarssonar (Reykjavík: Heimspekistofnun Há-
skóla Islands og Hið íslenska bókmenntafélag, 1995).
2 Sama rit, 1107a.
3 Sbr. Frederick Elliston, „In Defence of Promiscuity" í Philosophy and Sex,
ritstj. Robert Baker og Frederick Elliston (Buffalo, NY: Prometheus Books,
1975), s. 146-58; sjá einkum s. 150. Sbr. einnig Harald Bessason, „Innangarðs
og utan - um veraldar lausung", fyrirlestur fluttur á ráðstefnunni um lauslæti
7. september 1996.
4 Hér má benda á að orðið promiscuous er oft notað yfir samkynhneigða
karlmenn; en þeir eru samt sem áður ekki loose (sjá síðar í meginmáli).