Skírnir - 01.09.1996, Page 202
448
MIKAEL M. KARLSSON
SKÍRNIR
manneskjur. Þessar konur sýna þeim blíðu og umhyggju, að
minnsta kosti að einhverju marki, og gráta stundum ef þær fá
ekki slíkt til baka. Þá eru þær ekki lauslátar í skilningi Kristjáns.
Eg efast um að jafnvel „kortér-fyrir-þrjú gæjarnir" séu algjörlega
umhyggjulausir og tilfinningalausir gagnvart hjásvæfum sínum;
en ef það er rétt þá eru þeir ekki heldur lauslátir á mælikvarða
Kristjáns. Hættan virðist vera sú að skilgreining hans nái aðeins
til örfárra dæma, sé hún tekin bókstaflega; ef svo er, þá er hún
frekar gagnslaus.
VI
Að sjálfsögðu er ástarsamband fólks oft „án skuldbindingar" í
þeim hversdagslega skilningi að það ætlar ekki að halda samband-
inu gangandi. Kætumst í nótt, án skuldbindingar um framtíðar-
samband: Þetta eru skyndikynni. Ég fæ ekki séð að slíkt samband
sé sjálfkrafa „án nokkurrar sálrænnar eða siðlegrar skuldbinding-
ar“. Þótt elskendurnir ætli aldrei að giftast eða búa saman eða fara
saman í sólarlandaferð til Majorku, jafnvel þótt þeir ætli ekki einu
sinni að hittast aftur, felur það ekki í sér að samband þeirra sé án
kærleiks, eða að þeir líti hvor á annan bara sem leikföng, eða að
þeir líti á kynlífið bara sem tómstundagaman. Ég fæ ekki séð að
skyndikynni geti ekki verið kærleiks- eða virðingarrík, jafnvel
endurtekin skyndikynni við marga ólíka aðila.
Maður - karlmaður eða kvenmaður - getur haft góðar og
gildar ástæður til að halda sér við skyndikynni, jafnvel sem venju.
Ef hann vinnur mjög hættulegt starf (ef til vill gefandi starf sem
hann vill ekki segja skilið við) þá getur hann verið tregur til að
láta aðra manneskju verða of háða sér. Manneskju sem hefur upp-
lifað erfitt og kvalafullt ástarsamband og er alvarlega særð getur
reynst ómögulegt að binda vonir sínar við framtíð nýs sambands.
Hún leitar mannlegrar blíðu og ástar, og gefur blíðu sína og ást á
móti; en hún er ekki til í að fjárfesta í áframhaldandi ástarsam-
band við einn aðila. Sumir eru skrítnir og þola ekki langtímasam-
bönd. Vitaskuld er þetta skapbrestur, en trúlega geta þeir ekki
breytt því. Þeim finnast skyndikynni gefandi - það er eina nána
sambandið við aðrar manneskjur sem þeir hafa tök á að upplifa -
og ef til vill reyna þeir að vera góðir og hreinskilnir við rekkju-