Skírnir - 01.09.1996, Page 207
SKÍRNIR
TIL VARNAR LAUSLÆTI
453
þess að við tökum eftir henni. Því meira sem við hreinsum burt
áhrif hennar, því minni er freistingin til að fordæma fólk fyrir
lauslæti.
Lauslætisdómar hvunndagsins nærast á þeirri rótgrónu til-
finningu að þátttaka konunnar í kynlífi sé svívirðileg í sjálfri sér.
Sú tilfinning er afsprengi kreddunnar og karlrembunnar saman-
lagðrar, en karlremban gerir það að verkum, með einhverjum
furðulegum hætti, að kreddan (sem er út af fyrir sig hlutlaus milli
kynjanna) beinist fyrst og fremst að konunni. Það er fróðlegt að
taka eftir að þeir karlmenn sem eru oftast fordæmdir fyrir laus-
læti eru hommar. Ef til vill eru ýmsar ástæður fyrir þessu, en ein
er vissulega sú að fordómurum þykja samfarir karlmanna
skammarlegar í eðli sínu.
Sé kynlíf konunnar ekki ámælisvert í eðli sínu, þá er engin
ástæða til að fordæma hana fyrir það. Hún þarf út af fyrir sig
enga afsökun fyrir því að leggja stund á kynlíf. „En hvað þá með
skyndikynni? Ætli þau séu ekki ámælisverð í eðli sínu?“ En á
hvaða forsendum þá? Hér að framan hef ég reynt að sýna fram á
að þau geta byggst á mannlegri blíðu, umhyggju og ástúð. En
þetta yfirsést okkur svo lengi sem við höfum á tilfinningunni að
annaðhvort sé kynlífið bundið við „alvörusambönd“ - til dæmis
hjónaband - eða það sé ekkert annað en yfirgangur lostans. En ef
við losnum undan þessari tilfinningu, þá virðist mér að við höfum
engar forsendur til að fordæma skyndikynni. „Já, en myndu ekki
endurtekin skyndikynni allavega teljast svívirðileg í sjálfum sér?“
Eg fæ ekki séð að svo þurfi að vera. Þau eru stundum eina leiðin
til að taka þátt í innilegu persónulegu sambandi, þótt kreddu-
kenndar tilfinningar okkar æpi á móti. Ef við kveðum þær í
kútinn, þá færist sönnunarbyrðin yfir á þá sem fordæma slíkt
hegðunarmynstur.
Kristján hefur einmitt axlað sönnunarbyrðina og reynt að
sýna fram á að endurtekin skyndikynni, það að „samrekkja ólík-
um aðilum, sem maður er ekki í sambúð með, hverjum á eftir
öðrum á ákveðnu tímabili,“19 sé siðferðilega ámælisvert. Hann
19 Kristján, s. 429, með smávægilegum breytingum.