Skírnir - 01.09.1996, Page 209
SKÍRNIR
TIL VARNAR LAUSLÆTI
455
dæmi af vinum sínum og vandamönnum [...] sem ekki hafi náð
að höndla ástina eftir að hafa haft of mörg járn í eldinum of lengi
- og þannig orðið vanaþrælar skyndikynna" (s. 439). Þetta kann
að vera rétt, en hér þarf að fara með gát. Þessi dæmi nemendanna
eru af fólki sem (1) hefur tekið upp skyndikynni sem hegðunar-
máta um skeið og (2) hefur síðan átt erfitt með að höndla ástina.
Þetta eru trúlega staðreyndir málsins. En þá draga nemendur
Kristjáns, og hann sjálfur, ályktanir um það hvernig reyndirnar
tengjast orsakaböndum: Fólkið nær ekki að höndla ástina vegna
þess að það hefur stundað skyndikynni of lengi. Reynsla mín seg-
ir mér að líklegra sé að þetta fólk hafi frá unglingsárunum, eða
bernsku, átt erfitt með að höndla ástina eða mynda önnur náin
persónusambönd og hafi stundað skyndikynni þess vegna. Með
öðrum orðum finnst mér sennilegt að Kristján og félagar séu hér
að rugla saman orsök og afleiðingu.
Hvar á þá að leita orsaka ástarerfiðleika þessa fólks? Við því
er ekkert einfalt svar, og það sem ég segi núna byggist á reynslu
eins manns og er með öllu óvísindalegt. Eg leyfi mér samt að
veðja á það að manneskja sem alist hefur upp á heimili þar sem
samskipti foreldranna einkennast af ást, tillitssemi, ábyrgð, gagn-
kvæmri virðingu, umhyggju, þolinmæði og blíðu sé miklu ólík-
legri til að eiga erfitt með að höndla ástina en manneskja sem alist
hefur upp á heimili þar sem slík samskipti einkennast af hinu
gagnstæða, eða þar sem foreldrana vantar. Það væri heimskuleg
einföldun að halda að hlýleg samskipti foreldranna hrökkvi alltaf
til að tryggja farsælt ástarlíf barns, en ef ég ætlaði að rannsaka
þetta efni í alvöru myndi ég byrja á því að kanna orsakaþætti af
þessu tagi. Það vanamynstur sem máli skiptir í lífi einstaklings
skapast oftast í bernsku hans á foreldraheimili, en ekki af því sem
hann lendir í á táningsárum. Eg held þar að auki að persónuleiki
manns mótist að einhverju marki af náttúrunni; sumir ná ekki að
höndla ástina vegna þess að þeir eru bara þannig gerðir. Þetta
mætti líka rannsaka.
Ef þetta er rétt, eða nokkurn veginn rétt, þá er nær að vor-
kenna þessu fólki en að fordæma það. Að ásaka það um lauslæti,
sem í hvunndagsskilningi þess orðs felur í sér fordæmingu, er
þannig úr vegi og jafnvel út af fyrir sig ámælisvert.