Skírnir - 01.09.1996, Blaðsíða 219
SKÍRNIR
STÓRT ORÐ HÁKOT
465
Svipuðu máli gegnir um það hver tengsl stofnunarinnar eru að
öðru leyti við umhverfi sitt. Þá er í fyrsta lagi átt við fræðilegt
umhverfi og tengsl við aðrar sambærilegar stofnanir, eða í öðru
lagi við samfélagslegt eða stjórnmálalegt umhverfi, í þriðja lagi
við hagrænt eða viðskiptalegt umhverfi, eða jafnvel í fjórða lagi er
átt við nágrenni eða landshluta stofnunarinnar.
Lengd námsbrautar eða námsbrauta stofnunarinnar setur mót
á hana. Margar háskólastofnanir starfa við fyrstu áfanga háskóla-
stigs en aðrar við framhaldsnámsbrautir, og mjög margar við
hvort tveggja. I mörgum löndum, t.d. þar sem breskar hefðir
ríkja, er gerður svo skýr munur á almennum grunnáföngum há-
skólastigs annars vegar og hins vegar áföngum framhaldsnáms,
stjórnsýslunáms og rannsóknanáms að réttmætt er að tala fullum
fetum um tvö aðgreind skólastig fremur en aðeins eitt háskólastig
eins og gert er t.d. hér á landi.
Innra stjórnkerfi stofnunarinnar setur auðvitað einnig mark á
hana. Mjög mörgum háskólastofnunum er stýrt með akademísku
jafningjalýðræði meðal kennara, rannsóknamanna og annarra sér-
fræðinga, jafnvel með aðild námsmanna og sérstaklega skipaðra
stjórnarmanna eða dómnefnda. Það er með ýmsum hætti í ólík-
um stofnunum hvernig og að hve miklu leyti vísindamenn, kenn-
arar og rannsóknamenn, taka þátt í stjórnun og stefnumótun.
Mjög tengdir þessu eru starfshættir ýmsir, svo sem hvernig
starfsmenn, rannsóknamenn, sérfræðingar og kennarar eru valdir
til starfa. Margvíða koma óháðar dómnefndir við sögu, jafnvel
skipaðar með fjölþjóðlegri aðild. Víða um lönd mynda starfs-
menn háskóla einhvers konar hefðhelgaða virðingarstiga með
gamalgrónum alþjóðlegum starfstitlum, svo sem aðjúnkt, lektor,
dósent og prófessor, eða assistant professor, associate professor og
jafnvel einnig senior professor. Þá skiptir það og máli hvað um
innri skiptingu starfshlutfalla hvers og eins háskólastarfsmanns er
að segja, svo sem milli fræðslu, rannsókna, stjórnunar, ráðgjafar
og útgáfustarfa; og loks hvernig háttað er frjálsræði kennara og
rannsóknamanna og hvernig hagað er því aðhaldi sem þeir sæta.