Skírnir - 01.09.1996, Page 236
482
EIRÍKUR GUÐMUNDSSON
SKÍRNIR
ínugráum hversdagsleika í unaðslegt ævintýri.9 Hin kokhrausta afstaða
fyrstu bókanna, sem þó einkenndist sjaldnast af sátt, hefur vikið fyrir
nístandi angist og efa. I stað þess að líta á tungumálið sem óræðan vef
sem stendur á milli manns og heims hefur skáldið tekið það í þjónustu
sína; ósátt við heiminn og Söguna en sáttara við miðlunarhæfi tungu-
málsins.
III
Nei ekki sömu orðum sífellt
til þess er áþjánin of grimmileg
og baráttan of hörð
að sömu tuggnu orðum verði hún sögð og sigruð
heldur nýjum orðum
og gerðum
(„Á hringvegi ljóðsins VI“, 1980, s. 15)
Skáldskapur Sigurðar Pálssonar er þegar á heildina er litið afar tær eða
opinn. Það er á einhvern hátt auðvelt að ganga inn í hann og beita hon-
um sem sjóngleri á eigin veruleika. Glíman við nútíðina eða hina krefj-
andi andrá, þar sem einfaldleikinn situr í fyrirrúmi, gerir lesandanum
kleift að spegla sig í ljóðunum með nokkuð öðrum hætti en í skáldskap
innhverfari skálda, ekki síst þeirra sem fram komu hérlendis í upphafi
níunda áratugarins.10 Yrkisefni Sigurðar eiga sér styrka stoð og uppruna í
veruleikanum. Ljóð hans eru í senn jarðbundin og svífandi en ganga
umfram allt í berhögg við hugmyndir um ljóðlistina sem harðlæst og
uppskrúfað tjáningarform. A sama tíma búa þau yfir magnþrungnara
sambandi texta og lífs en skáldskapur ýmissa innhverfari ljóðskálda. Við
getum í þessu samhengi talað um „sjálfstækni" þar sem leitast er við að
frelsa manninn úr viðjum afla sem sækja að honum úr ólíklegustu áttum
9 Kristján Þórður viðrar áþekka hugmynd í grein sinni þar sem hann segir „að í
Ljóðlínu-bókunum virðist sem skáldskapurinn sé runninn saman við veru-
leikann. 1 stað þess að birtast sem sérstakur heimur, er skáldskapurinn tæki til
þess að gera hversdagsleikann óhversdagslegan. Markmiðið er ekki að komast
burt heldur að upplifa veruleikann með aðstoð skáldskaparins. Máttur skyn-
færanna er lofaður. Skáldskapurinn og lífið eru eitt“ (s. 19).
10 Eysteinn Þorvaldsson talar í grein sinni „Eftir 68. Um póstmódernisma í
íslenskri ljóðagerð" um innhverfnina í skáldskap ungskálda níunda áratugar-
ins: „Þau hverfa gjarnan inn í eigin hugarheim, beita margslungnu myndmáli
og forðast beinskeyttan boðskap. [...] Þau kanna eigin tilfinningar sínar, vit-
und og undirvitund og tjá niðurstöðurnar í ljóðum sínum.“ Sjá Ljóðaárbók
1989. Ný skáldskaparmál. Ritnefnd: Berglind Gunnarsdóttir, Jóhann Hjálm-
arsson og Kjartan Árnason. Almenna bókafélagið, 1989, s. 89-90.