Skírnir - 01.09.1996, Page 240
486
EIRÍKUR GUÐMUNDSSON
SKÍRNIR
nútíðarinnar, leikur frelsisins sem umskapar veruleikann og sjálfssköpun
meinlætamannsins - gátu að hans mati ekki farið fram annars staðar en í
listinni.
Til að varpa frekara ljósi á nútímaviðhorfið - tengslin milli skrifa og
sjálfssköpunar - er ekki úr vegi að rifja upp litla ferðasögu sem Benedikt
Gröndal Sveinbjarnarson (1826-1907) skáld og náttúrufræðingur skrifaði
undir lok síðustu aldar. „Ferðasaga heimanað til Halldórs Þórðarsonar"
geymir sundurleitar hugsanir skáldsins á leið frá húsi sínu við Vesturgöt-
una til bókbindarans.16 Frásögnin einkennist af yfirþyrmandi nákvæmni
líkt og augu Benedikts hafi lokist upp í fyrsta sinn þennan morgun.
Ómáluð dómkirkjan sem breytir litum við hverja skúr minnir á óstöðug-
leika lífsins og staðleysu mannanna. Kirkjuklukkan fylgir ekki tímanum
og kirkjan sjálf minnir á skjöldótta eða skjótta hryssu. Urkringlan í
glugga úrsmiðsins, sem skáldinu hefur löngum orðið starsýnt á, „snýst í
kring dag og nótt eins og jörðin og pláneturnar" (s. 243). Sjálfur er Bene-
dikt, þegar hann gengur framhjá hótelinu „með öllum sínum konjaks-
drömmum og portvínspytlum“ (s. 242), eins og Herkúles á vegamótum
með dyggðina á aðra hönd en sællífið á hina. Gröndal segir:
Veðrið var gott og heiðskýrt, og mér fannst ég vera eins og nýr, mér
fannst ég ekki hafa séð heiminn fyrr, allt eins og þegar maður raknar
upp eftir fylliríistúr, þegar maður hefur ekki séð himin né jörð í viku,
þá er maður eins og endurfæddur, og mega góðtemplararnir vita
þetta, því ekki munu þeir ganga í góðtemplarafélagið nema því að-
eins, að þeir hafi gleymt eða misst sjónina á heiminum; maður fær
nýjar hugmyndir og nýjar sjónir og allt verður eins og nýgrænkuð
jörð á vordegi, og þess vegna ræð ég öllum til að fara á duglegan
fylliríistúr, svo þeir verði endurfæddir og losist við allt þetta rusl og
ryk, sem hefur sest á þá á meðan þeir voru ófullir. (s. 240-41)
I þessari tilvitnun er Gröndal raunar ekki fjarri samtímamanni sínum
Baudelaire sem boðaði lausn undan þrældómsoki tímans, lausn sem fólst
í viðstöðulausri ölvun - „Af víni, skáldskap eða dyggðum, allt eftir
geðþótta".17
Við sjáum svipaða hugmynd í einu af fjölmörgum næturljóðum Sig-
urðar Pálssonar, „Nóttin spinnur", þar sem „Grænn þytur / verður
vímudimmur / og höfginn þurrkar út / Utanaðbókina / Valdið / Skipanir"
16 Söguna er að finna í Ritum. Öðru bindi. Gils Guðmundsson sá um útgáfuna.
Skuggsjá - Bókabúð Olivers Steins, 1982, s. 240-58. Héðan í frá verður vísað
til sögunnar með blaðsíðutali innan sviga í meginmáli.
17 Sjá ljóð Baudelaires „Ölvið ykkur“ í þýðingu Jóns Óskars. Ljóðastund d
Signubökkum. Þýðingar og ágrip af franskri Ijóðsögu á nítjándu og tuttugustu
öld. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1988, s. 72.