Skírnir - 01.09.1996, Page 249
SKÍRNIR
MÖRG ANDLIT AKASÍUTRÉSINS
495
eða sjálfræði; þætti sem stöðugt kallast á í sifjafræði Foucaults.30 Fárán-
leikinn er kannski af þeim sökum ekki víðs fjarri í höfundarverki Sigurð-
ar og á það ekki síst við um „sviðsljóðaflokkana" „Orstyttur (ljóð fyrir
svið: leiksvið og leikrými)" í Ljóð vega salt og „Talmyndastyttur (stuttar
talmyndir)" í Ljóð vega gerð, þar sem Guðbergur Bergsson á til dæmis
að stinga sér til sunds í Laugardalslauginni. Merking ljóðanna er annars
borin uppi af hefðbundnum táknmyndaheimi: skilum dags og nætur
(„Dögun“, 1993, s. 50), hringrás árstíða („Ratsjá vongleðinnar I-V“,
1985, s. 19-26) og andstæðu náttúru og borgar („sprengisandur I-IV“,
1975, s. 43-46). Hér er einnig hægt að bæta við merkingarheimi bernsk-
unnar sem Sigurður sækir talsvert í; hann nefnir æskuslóðirnar undirvit-
und sína í ljóðinu „Sveifla" (1990, s. 51) og „Fjöll bernskunnar" í sam-
nefndu ljóði eru honum „bakhjarlar" (1993, s. 48).31 Þrátt fyrir stöðugan
táknmyndaflaum er sjálfinu ekki sundrað í ótal myndir heldur gengur
það í endurnýjun lífdaga. Sjálfssköpunin, sem nær í senn til höfundar og
lesanda, getur aðeins átt sér stað innan marka listarinnar; utan hennar er
óreiða heims sem er allt annað en þéttur í sér og sjálfið tengist ekki nema
í hverfulli skynjun augnabliksins. Lesandinn fær aldrei á tilfinninguna að
hann sé í beinu talstöðvarsambandi við bátsmann á „Skipi hinna vit-
firrtu“ heldur hefur hann fengið afhentan farseðil með því ágæta fleyi og
getur veifað ljóðabókum Sigurðar Pálssonar því til staðfestingar að hegð-
un hans sé samkvæmt bókinni.
V
Upp kemur sjöundi flöturinn
með ljóðtölunni leyndu
og ég bendi með sjötta fingri
í fimmtu höfuðáttina
Einbeitta svalandi síþráða
ljóðveginn
Einu og sjaldséðu
höfuðáttina
(„Á hringvegi ljóðsins V“, 1980, s. 14)
30 Sjá til að mynda Richard Bernstein: „Foucault: Critique as a Philosophical
Ethos“. Critique and Power: Recasting the Foucault/Habermas Debate. Rit-
stj. Michael Kelly. The MIT Press, 1994, s. 216.
31 Af öðrum ljóðum þar sem Sigurður yrkir auðsjáanlega um eigin bernskuheim
má til dæmis nefna ljóðaflokkana „grasljóð um gamla tíð“ í Ljóð vega salt
(s. 65-73) og „Segðu mér að norð-austan“ í Ljóð vega gerð (s. 45-54), og ljóðin
„Brattur stigi“ (s. 66) og „Gamalt haust“ í Ljóðlínudansi (s. 67).